Meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá lögreglunni

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 11:06:15 (4315)

2001-02-08 11:06:15# 126. lþ. 66.91 fundur 270#B meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá lögreglunni# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[11:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Fréttaflutningur af því tilefni sem hér er gert að umræðuefni kom ákaflega ónotalega við menn.

Í tölvuvæddum og rafrænum heimi er ástæða til að hafa mikla aðgát í allri skráningu persónulegra upplýsinga og meðferð slíkra upplýsinga. Geymslurými eða geymslumöguleikar slíkra upplýsinga eru praktískt talað ótakmarkaðir í dag og tæknilegum möguleikum til hvers kyns eftirlits, hlerunar og vöktunar borgaranna eru lítil takmörk sett. Það er því sérstaklega mikilvægt eins og málum er nú háttað að vandað sé til allra reglna í þessu sambandi.

Grundvallarreglurnar eiga auðvitað að vera þær að engar upplýsingar um grunsamlegt eða saknæmt athæfi séu skráðar nema viðkomandi athæfi sé sannað. Í öðru lagi að engra slíkra persónulegra upplýsinga skuli heimilt að afla af utanaðkomandi aðilum án undangengins samþykkis þess sem upplýsingarnar varðar.

Í þriðja lagi, herra forseti, sýnir reynslan að nauðsynlegt er og þörf á reglubundnu og mjög öflugu eftirliti með því hvernig slíkum upplýsingum er safnað, hvernig þær eru geymdar eða varðveittar, hvernig þeim er eytt og hverjir hafa rétt til að hafa aðgang að þeim. Ég held að ekki sé hægt annað en viðurkenna að í ýmsum efnum hefur pottur verið brotinn hjá okkur. Það kann að vera og vonandi er það svo að það standi að einhverju leyti til bóta með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á löggjöf og framkvæmd eða eru að komast í gagnið. En það veitir sannarlega ekki af, herra forseti, ekki síst í ljósi þess að væntanlegur er hinn miðlægi og víðfeðmi upplýsingagrunnur Schengen-kerfisins sem verður mesta upplýsingasöfnun af þessum toga sem sögur fara af og Ísland varða Því hvet ég hæstv. dómsmrh. til þess að standa vel á verði í þessum efnum.