Meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá lögreglunni

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 11:08:41 (4316)

2001-02-08 11:08:41# 126. lþ. 66.91 fundur 270#B meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá lögreglunni# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[11:08]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og öðrum sem tekið hafa þátt í umræðunni.

Hér hefur komið fram að sett hefur verið reglugerð um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu og unnið er að því að bæta meðferð slíkra upplýsinga, varðveislu og miðlun og er það mjög vel. Hins vegar er það staðreynd að þessi reglugerð er mjög opin. Það kemur einnig fram í henni að heimilt er að halda skrár um einstaklinga sem tengjast rannsóknum. Hér segir t.d. í 2. gr. reglugerðarinnar, með leyfi forseta, um skrár sem lögreglustjóra er heimilt að halda:

,,Aðrar skrár sem nauðsynlegar eru í þágu löggæsluhagsmuna til að afstýra yfirvofandi hættu eða sporna við afbrotum.

Ríkislögreglustjóri getur veitt einstökum lögreglustjórum heimild til að halda skrár um ákveðin atriði ef það þykir nauðsynlegt vegna tiltekinna löggæsluverkefna.``

Síðan eru vissulega settar skorður við því hvernig má nýta þetta. En ég leyfi mér að efast um að sú staðhæfing hæstv. dómsmrh. standist að hvergi sé að finna skrár yfir aðra einstaklinga en þá sem sannast hefur sekt hjá og dómur hefur verið upp kveðinn um. Það hefur komið fram í fjölmiðlum að nöfn einstaklinga sem tengjast afbrotum finnist á skrám sem síðan hafi verið notaðar: Tökum dæmi:

Unglingur tekur þátt í samkvæmi þar sem eiturlyf eru höfð um hönd. Lögregla er kölluð á staðinn, fólkið er tekið til yfirheyrslu, sekt sannast eða ekki eftir atvikum, en skráin er til. Hún er dregin fram í dagsljósið 10--30 árum síðar án þess að viðkomandi hafi um það hugmynd. En þannig fær hann þessar upplýsingar frá því áratugum fyrr í lífinu aftur í bakið. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmrh.: Verður séð (Forseti hringir.) til þess að slíkar upplýsingar verði þurkaðar út?

Í annan stað, herra forseti, langar mig til að bæta lítilli spurningu (Forseti hringir.) við. Hún er stór þó. Er vitað til þess (Forseti hringir.) að einkafyrirtækjum hafi verið miðlað upplýsingum af þessu tagi (Forseti hringir.) öðrum en Íslandspósti hf.?

(Forseti (HBl): Forseti vill minna hv. þingmenn á að það er ekki ætlast til að ný efnisatriði séu tekin upp eftir að rautt ljós hefur kviknað.)