Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 11:23:48 (4319)

2001-02-08 11:23:48# 126. lþ. 66.1 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[11:23]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Það er mjög margt sem þarfnast náinnar skoðunar í þeirri tillögu til þál. sem hér um ræðir. Ég ætla í máli mínu að drepa á nokkur atriði við fyrri umr. en vænti þess að hv. utanrmn. muni skoða tillöguna ítarlega, enda ýmislegt sem orkar tvímælis.

Eins og segir í heiti tillögunnar fjallar hún um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í einhverju aðildarríkja ESB eða á Íslandi eða í Noregi. Einnig kemur fram í ákvæðinu að samkomulag þetta þurfi að ganga í gildi eigi síðar en 25. mars nk. þegar Brussel-samningurinn svokallaði kemur til framkvæmda.

Herra forseti. Í sjálfu sér er markmið Dyflinnarsamningsins gott, þ.e. að leitast skuli við að hindra að umsækjanda um hæli sé vísað frá einu ríki til annars án þess að mál hans sé tekið til skoðunar og fái rétta meðferð. Hins vegar er ýmislegt sem hangir á þessari spýtu, herra forseti, og mér er ekki alveg ljóst hvernig nákvæmlega það plagg sem hér liggur fyrir á að þjóna hagsmunum þeirra og vernda þá sem eru hælisleitendur því að oftar en ekki þurfa þeir aðilar á vernd ríkja að halda frekar en hitt.

Í samningunum felst að hafi umsókn um hæli verið hafnað í einu aðildarríki og umsækjandi sækir í framhaldi um hæli í öðru aðildarríki er hinu síðarnefnda heimilt að snúa umsækjanda til baka til þess fyrrnefnda án þess að taka umsóknina til meðferðar. Í sjálfu sér er þetta mjög skýrt. En hins vegar verður að leggja þunga áherslu á það, herra forseti, að hér er einvörðungu um heimild að ræða því að ríkinu er einnig heimilt að taka umsóknina til meðferðar þó svo að á því liggi ekki sú skylda. Mér finnst mjög brýnt í þessari umræðu að fram komi á hinu háa Alþingi hvort hæstv. ríkisstjórn þykir ríkari ástæða til að leggja áherslu á heimildina til að vísa manni frá eða þá heimild að taka mál hans til umfjöllunar af því að á þessu er auðvitað grundvallarmunur.

Í framhaldinu, herra forseti, segir að stefna lands ráði því hvaða meðferð verði höfð um umsóknir. Eins og hv. þm. er kunnugt er til umfjöllunar á hinu háa Alþingi frv. til laga um útlendinga sem einnig þarfnast mjög ítarlegrar skoðunar. Til skamms tíma hefur stefna Íslendinga í málefnum útlendinga verið frekar laus í reipunum og loðin svo ekki sé dýpra í árinni tekið, enda er verið að endurskoða löggjöf frá árinu 1965 um þau efni. Ég vænti þess að sú stefna liggi skýr fyrir við afgreiðslu þessa máls, herra forseti, því að í raun er ekki hægt að afgreiða þetta mál án þess.

Til marks um þá stefnu sem ríkt hefur á Íslandi í málefnum hælisleitenda nægir að nefna að í sögu lýðveldisins hefur einn maður fengið pólitískt hæli á Íslandi, einn einstaklingur, herra forseti. Vissulega hafa menn fengið hér hæli af svokölluðum mannúðarástæðum. Það gefur þeim hins vegar ekki sama ,,status`` og þegar um pólitískt hæli er að ræða. Vissulega höfum við líka veitt flóttamönnum skjól og hæli en það er alveg ljóst að ef þessi samningur á að virka þannig að hann virki hælisleitendum að einhverju leyti í vil, þá verður að verða grundvallarstefnubreyting hvað varðar málefni útlendinga og hælisleitenda hér á landi, herra forseti.

Hér er einnig kveðið á um að koma á fót miðlægu kerfi, miðlægum gagnagrunni. Hv. þingmönnum ætti að vera í fersku minni umræða um annan miðlægan gagnagrunn um heilbrigðisupplýsingar á Íslandi og því ljóst að miðlæg kerfi af þessum toga eru síst einföld viðureignar og það ber að meðhöndla bæði þessar upplýsingar og umgengni um slíkt kerfi af fyllstu varúð.

[11:30]

En við skoðun á þeirri tillögu sem hér liggur fyrir er ljóst að safna á fingraförum hælisleitanda í miðlægan gagnagrunn. Mér sýnist eftir lauslega skoðun að í einhverjum tilvikum megi geyma þessi fingraför í tíu ár í hinum miðlæga gagnagrunni og í öðrum tilvikum í tvö ár. Það sem meira er, herra forseti, er að í reglugerð Evrópusambandsins um þennan gagnagrunn, sem kallaður er EURODAC, er mælt fyrir um að taka skuli fingraför af öllum er leita hælis og eru 14 ára eða eldri. Hvaðan í ósköpunum kemur sú viðmiðunartala? Er þeim sem sömdu samninginn ekki kunnugt um að menn verða ekki sjálfráða í flestum ríkjum Evrópu fyrr en þeir eru 18 ára? Þarf að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir vegna unglinga? Við þurfum að komast til botns í þessu í hv. utanrmn. og ég vænti þess að þetta atriði verði skoðað mjög vel. Ég leyfi mér að efast um að þetta standist barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þó að ég taki fram að ég hafi ekki kannað það sérstaklega.

Tími minn er á þrotum, herra forseti, og mig langar rétt í blálokin að hreyfa því atriði hver staða samningsins verður eftir árið 2004, sem er einungis eftir þrjú ár, en þá mun eðli þessa starfs innan Evrópusambandsins breytast í grundvallaratriðum vegna Amsterdamsáttmálans. Það er mjög mikilvægt að það sé einnig rætt í þessari umræðu.