Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 11:48:23 (4322)

2001-02-08 11:48:23# 126. lþ. 66.1 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[11:48]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það hefur verið gagnrýnt í þessari umræðu hversu seint málið er fram komið. Ég skil afskaplega vel þá gagnrýni. En ég vildi hins vegar benda hv. þingmönnum á þá staðreynd að samningurinn var undirritaður 12. janúar sl. Það tók mun lengri tíma en við hefðum viljað að ná þessari niðurstöðu og það var verulegur ágreiningur milli Íslands og Noregs annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar um málið.

Þessi tillaga var lögð fram á hv. Alþingi þegar það kom saman vegna öryrkjamálsins svokallaða. Þá voru engin færi á því eða möguleikar að taka hana til umfjöllunar. Hins vegar var ætlunin, ef Alþingi hefði komið saman með þeim hætti sem ákveðið var fyrir jól, að þetta mál yrði tekið til umfjöllunar strax í upphafi þings og nú er það til umræðu á fyrsta starfsdegi hv. Alþingis. Því miður gátum við ekki haft neina aðra meðferð á málinu því að okkur var engin leið að leggja það fyrir hv. Alþingi fyrr en samningaviðræðum var lokið. Hins vegar er það staðreynd að miðað hefur verið við það af hálfu allra Norðurlandanna að Schengen-samkomulagið tæki gildi samtímis í öllum löndunum þann 25. mars nk. Þess vegna er nauðsynlegt að staðfesta þetta mál nú fyrir lok þessa mánaðar.

Ég tel að þetta mál hafi mátt vera ljóst allan tímann þó að ég sé á engan hátt að afsaka hversu stuttur tími er til stefnu. Ég tel hins vegar að í ljósi aðstæðna ætti að vera vel mögulegt að afgreiða málið innan þeirra tímamarka sem við höfum. Þetta vildi ég sagt hafa um þessa gagnrýni þó að ég skilji það, og auðvitað er það góð regla, að Alþingi hafi ávallt sem lengstan tíma til umfjöllunar um mál. En stundum kemur það fyrir vegna utanaðkomandi aðstæðna að við þurfum að líta á mál með öðrum hætti.

Ég vildi aðeins út af ummælum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar hann vitnaði til Bretlands og Írlands taka það fram að það er mikill misskilningur að Bretland og Írland standi utan við allt Schengen-samstarfið. Þvert á móti hafa þessi tvö ríki tekið yfir stærstan hluta þeirra gerða sem mestu máli skipta, þar á meðal lögreglusamstarf og Schengen-upplýsingakerfið. Þau hafa hins vegar kosið að halda áfram vegabréfaeftirliti og sem aðildarríki að Evrópusambandinu gátu þessi ríki í Amsterdam, þegar svokallaður Amsterdamsamningur var gerður, sett sín eigin sérskilyrði fyrir því að samþykkja að samstarf Evrópusamstarfsins yrði eflt á þessu sviði, en einmitt vegna stöðu sinnar sem aðildarríki geta þau haldið aðgangi að samstarfinu þrátt fyrir sérreglur um vegabréfaeftirlit.

Það er alveg ljóst að hið sama hefði ekki getað gilt um Ísland og Noreg sem standa utan við ESB. Það liggur alveg fyrir að við gerumst aðilar að þessu samstarfi vegna þeirrar sérstöðu sem við höfum með samstarfi okkar við hin Norðurlöndin. Það er grunnurinn að þessu samstarfi. Vildum við viðhalda því góða og nána samstarfi sem við höfum haft við Norðurlöndin um áratuga skeið? Frammi fyrir þeirri spurningu stóðum við og stöndum enn. Það var pólitísk niðurstaða ríkisstjórnar Íslands að það bæri að gera og þess vegna erum við að þessu. Það er mikill misskilningur þegar því er haldið fram að við hefðum getað gert þetta allt öðruvísi. Auðvitað má alltaf deila um samningsniðurstöðu og það má deila um hvort þeir samningar sem við höfum náð séu fullnægjandi eða ekki. En samningamenn okkar gengu mjög hart fram í þessum samningum og ég tel að þeir hafi staðið sig afar vel.

Við erum í vaxandi mæli þátttakendur í alþjóðasamstarfi og ákveðin mál verða ekki leyst nema í alþjóðasamstarfi. Í því felast miklir hagsmunir fyrir Íslendinga að taka þátt í þessu samstarfi og það varðar mjög framtíð okkar á alþjóðavettvangi. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hér erum við að stíga rétt skref. Hér erum við að ganga til samstarfs um mál sem varða miklu um samvinnu okkar við nágrannaþjóðir okkar, þær þjóðir sem skipta hvað mestu í samskiptum við okkur og ég tel að þarna hafi verið stigið farsælt skref.

Ég vil aðeins nefna spurningar sem hér hafa komið fram, í fyrsta lagi frá hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur um, ef það er rétt munað, það þegar rætt var um að heimilt sé að vísa manni frá annars vegar og að jafnframt sé heimilt að taka mál hans til umfjöllunar. Hv. þm. spurði á hvort við mundum leggja mesta áherslu. Ég tel að ekki sé hægt að gefa út neina allsherjarreglu í þessu máli. Það hlýtur að vera komið undir hverju einstöku tilviki og mati okkar á því hvað þar sé í húfi. Þar verðum við að sjálfsögðu að hafa í huga mannúðarsjónarmið og almenn sjónarmið um mannréttindi sem ég tel að afskaplega erfitt sé að ákveða fyrir fram. Það er sem sagt ljóst að okkur er heimilt að vísa viðkomandi aðila frá eins og hv. þm. tók fram. En okkur er líka heimilt að taka mál hans til umfjöllunar og þá verður að meta það í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru.

Að því er varðar spurningu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um það hvort við getum sett algerlega okkar eigin reglur, þá er það náttúrlega alveg ljóst að þeir samningar sem við erum að gera, bæði á þessu sviði og ýmsum öðrum sviðum, takmarka möguleika okkar til þess að setja okkar eigin reglur að eigin geðþótta. Það held ég að öllum megi vera ljóst. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þessir samningar styrki mannréttindi gagnvart því fólki sem hér leitar hælis og styrki stöðu Íslands sem þjóðar sem vill berjast fyrir mannréttindum í heimi okkar. Við erum með þessu að ganga til samstarfs við þjóðir Evrópu, m.a. hinar Norðurlandaþjóðirnar. Ég er þeirrar skoðunar að mannréttindi séu hvað best tryggð á Norðurlöndunum og að það sé styrkur fyrir Íslendinga nú sem hingað til að hafa náið samstarf við hinar Norðurlandaþjóðirnar á þessum sviðum.

Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að mikil ásókn er í að komast til þessara landa. Mikil örbirgð er í heiminum og margir, afskaplega margir, vildu geta notið þeirra lýðréttinda og mannréttinda og velmegunar sem er almennt á Norðurlöndunum og það eru einhver takmörk fyrir því hvað við getum tekið á móti mörgu fólki. Þetta er okkur afskaplega vel ljóst og þar verða að gilda ákveðnar reglur. Mikilvægt er að þar gildi samræmdar reglur vegna þess að eftir að til þessara samninga hefur verið gengið og þeir gerðir þá eru viðkomandi borgarar frjálsir að því að ferðast innan þessa svæðis og það er einmitt þess vegna sem þarna verða að ríkja samræmdar reglur. En með þeim samningum sem gilda í Evrópu, hvort sem það er á sviði Evrópusambandsins, á sviði Norðurlandanna eða á sviði Evrópuráðsins, eru mannréttindi með þessum samningum tryggð betur á þessu svæði en nokkurs staðar annars staðar í heiminum að mínu mati. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að í því felist ávinningur fyrir Íslendinga að vera aðili að samtökum þessara þjóða á þessu sviði, þar á meðal um þá meðferð sem viðhöfð er þegar einstaklingar leita hælis eða óska eftir því að koma til viðkomandi landa.