Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 12:08:22 (4329)

2001-02-08 12:08:22# 126. lþ. 66.1 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[12:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við þetta að bæta. Það er staðfest að hv. þm. vill standa utan þessa samstarfs. En það þjónar afskaplega litlum tilgangi að standa hér og vilja hafa þetta með einhverjum allt öðrum hætti sem aldrei hefur staðið til boða eða komið til greina.

Við verðum að sjálfsögðu að taka ákvarðanir á grundvelli þeirrar stöðu sem við stöndum frammi fyrir. Það er það sem við höfum gert í þessu máli. Við höfum náð fullnægjandi samningum að mínu mati og við erum að tala um að fullgilda þá samninga eins og öll hin Norðurlöndin. Ef menn hefðu viljað gera þetta einhvern veginn öðruvísi er alveg ljóst að við hefðum staðið utan þessa samstarfs og við hefðum þá verið á sama báti og Bandaríkin og Kanada. Ég tel að það hefði verið algjörlega ófullnægjandi staða fyrir Ísland og skaðað mjög framtíðarhagsmuni landsins. Þess vegna leggjum við áherslu á að ljúka málinu því það þjónar hagsmunum Íslands til framtíðar.