Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 12:09:34 (4330)

2001-02-08 12:09:34# 126. lþ. 66.1 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[12:09]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. sagði áðan að ekki væri hægt að gefa út allsherjarreglur um hvernig ætti að taka á hælisbeiðendum sem hingað koma. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að ég undrast mjög þessi ummæli hæstv. utanrrh. og verð að inna hann nánar eftir því hvað hann eigi við.

Á ekki að setja það nánar í lög um útlendinga ellegar í vinnureglur þeirra sem starfa við að taka á móti útlendingum í Leifsstöð t.d. hvernig mál skuli meðhöndluð? Þetta er algjört grundvallaratriði, herra forseti, og hæstv. utanrrh. verður að svara þessu skýrar en hann gerði áðan.

Í annan stað langar mig til að minnast aftur á aldursmörkin sem ég gerði að umræðuefni áðan, þ.e. að taka skuli fingraför af öllum er leita hælis og eru 14 ára og eldri. Mig fýsir að vita, herra forseti, hvers vegna miðað er við 14 ára aldur og hvaða rök liggja þar að baki.

Að síðustu, herra forseti, vegna þess sem hæstv. utanrrh. sagði um ásókn fólks til Evrópu, ásókn í að setjast að þar sem efnahagsástandið er betra en í heimalandinu. Á þeim peningi er önnur hlið og hún er sú að Evrópa hefur mikla þörf fyrir vinnuafl, vinnuafl sem verður að koma frá öðrum löndum og um þetta er okkur öllum hér fullkunnugt. Það er því fleira sem stýrir fólksflutningum en þessi svokallaða ásókn. Hún er líka einfaldlega þörfin fyrir erlent vinnuafl.