Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 12:11:23 (4331)

2001-02-08 12:11:23# 126. lþ. 66.1 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[12:11]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Að því er varðar þau aldursmörk sem þarna eru þá er það einfaldlega vegna þess að þeir sem leita hælis eru, mér liggur við að segja því miður, á þessum aldri og þeir aðilar eru til sem töldu nauðsynlegt að fara jafnvel neðar en það var ekki gert.

Að því er varðar svör mín við því hvort hægt er að gefa út einhverjar algildar reglur fyrir fram í því sambandi sem hv. þm. nefndi, þá staðfesti ég aðeins það sem ég sagði, ég tel að það sé ekki hægt. Það er ekki okkar hugmynd með þessum samningum og reglum að beina fólki sérstaklega hingað í ríkari mæli en til annarra ríkja með því að fara að setja einhverjar reglur sem eru miklu frjálsari en alls staðar annars staðar í Evrópu. Það kemur að sjálfsögðu ekki til greina.

En við verðum síðan að meta það á okkar eigin forsendum í hverju einstöku tilviki hvað við gerum í einstökum málum. Og þá verðum við að hafa til viðmiðunar þau mannúðarsjónarmið sem gilda í landi okkar og treysta á framkvæmd þeirra eftir þeim venjum sem ganga í samfélaginu. Við höfum það sterkt lýðræði hér á landi, m.a. með aðhaldi hv. Alþingis, að ég treysti því að sú framkvæmd geti verið til fyrirmyndar. En reglur um hana er ekki hægt að setja nákvæmlega fyrir fram.