Skaðabótalög

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 12:36:33 (4339)

2001-02-08 12:36:33# 126. lþ. 66.4 fundur 50. mál: #A skaðabótalög# (tímabundið atvinnutjón) frv., Flm. BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[12:36]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég er að benda á og benti á það í framsögu minni að ekki er eðlilegt að mismuna fólki með tilliti til sparnaðarforma. Lífeyrissjóðirnir eru sparnaður launafólks í gegnum tíðina. Lífeyrissjóðsgreiðslur eru hluti af almennum umsömdum kjörum í kjarasamningum og tekið er tillit til þessara greiðslna við gerð kjarasamninga og þegar kjör launafólks eru ákveðin.

Ég er viss um að hv. þm. þekkir til margra sem leggja fyrir annan sparnað sem nokkurs konar tryggingu fyrir sig í framtíðinni. Það gera margir í dag að leggja fyrir tryggingu, peninga inn á reikning sem litið er á sem tryggingu, sparnað þegar fólk þarf á því að halda að nota þá fjármuni. Ég vil spyrja hv. þm. á móti: Telur hann eðlilegt að mismuna fólki eftir sparnaðarformum, hvort það hefur lagt fyrir í lífeyrissjóð sinn til að eiga til mögru áranna eða hvort það hefur lagt fyrir á einhvern annan hátt og geti jafnvel átt þar feita reikninga með fjármunum sem það greiðir síðan 10% af í fjármagnstekjuskatt? Er það ekki mismunun á sparnaðarformum? Það hlýtur að þurfa að taka það þá inn í umræðuna líka, herra forseti. Ég held að hv. þm. verði að taka þetta líka inn í umræðuna að við erum með því að mismuna fólki með tilliti til þess hvernig það velur að leggja sparnað sinn fyrir, í hvaða formi.