Skaðabótalög

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 12:56:24 (4346)

2001-02-08 12:56:24# 126. lþ. 66.4 fundur 50. mál: #A skaðabótalög# (tímabundið atvinnutjón) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[12:56]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. telur mig ekki hafa skilning á kjörum þeirra sem lenda í slysum. Ég þakka hv. þm. fyrir þau ummæli. Ég tel mig aftur á móti hafa skilning og ég vil gjarnan að lendi menn í kostnaði, t.d. vegna hjólastóls eða einhvers slíks sé vel séð fyrir þeim kostnaði. Það vil ég gjarnan. Lendi menn í miklum miska þá vil ég líka að það sé bætt enda er gert ráð fyrir því í skaðabótalögunum.

Það að ekki sé nóg að fá 70% af tekjum, það er það sem menn fá úr lífeyrissjóðunum og það er það sem ég vil að metið sé inn í skaðabótalögin þannig að það bæti það sem á vantar upp á 100% laun, herra forseti, eða 96% laun því að menn borga ekki í lífeyrissjóð af þessum bótum. En hv. þm. vill leggja til að ekkert tillit sé tekið til þeirra 70% tekna sem menn fá úr lífeyrissjóðunum og það get ég ekki fallist á.

Það að ekki sé jafnræði á milli sparnaðarforma, ég fór inn á það áðan. Annars vegar erum við að tala um skyldutryggingu, skyldusparnað með lögum, allt að því skattlagningu. Skilgreiningin á skatti á nánast við um iðgjald í lífeyrissjóð og sjúkrasjóði. Það er mikill munur þar á ef ríkið skyldar alla landsmenn til að borga í lífeyrissjóð og svo hins vegar því þar sem menn taka sjálfir ákvörðun um að spara og neita sér um neyslu af því sem eftir er af laununum.

En það að menn skuli leyfa sér á hinu háa Alþingi að tala um lögbrot sem einhvers konar venjulega leið, þ.e. það lögbrot að menn hafi ekki borgað í lífeyrissjóð af launum sínum, ég vil ekki að því blandað sé inn í umræðuna og notað sem rök.