Skaðabótalög

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 13:43:24 (4349)

2001-02-08 13:43:24# 126. lþ. 66.4 fundur 50. mál: #A skaðabótalög# (tímabundið atvinnutjón) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[13:43]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem fram kom varðandi lífeyrissjóðina að þeir eru með mismunandi örorkutryggingar. Ég gerði það reyndar að umfjöllunarefni. Hv. þm. Pétur H. Blöndal vísaði sérstaklega í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, að örorkutryggingarnar þar væru slakari. Það er rétt en það á við um svokallaða B-deild sjóðsins. Þar eru tryggingarnar lakari en almennt gerist hjá lífeyrissjóðum að því leyti að einstaklingur sem slasast eða verður fyrir orkutapi utan vinnu á ekki sama rétt og gerist í öðrum lífeyrissjóðum. Þetta hefur hins vegar verið lagfært í A-deild sjóðsins, og á við um alla nýja starfsmenn, þ.e. þá sem hafa komið inn í sjóðinn frá því að ný lög tóku gildi í ársbyrjun árið 1997. Hitt er alveg rétt að í hinum sjóðnum eru þessi kjör lakari.

Varðandi meginefni í málflutningi hv. þm. Péturs H. Blöndals, að það væri eðlilegt að skerpa á lágmarkskvöðum á lífeyrissjóði varðandi örorku, þá vil ég taka undir það. Mér fyndist koma til álita að skoða í því samhengi frádrátt vegna greiðslna sem allir landsmenn lögum samkvæmt þurfa að inna af hendi. Við búum ekki við slíkt fyrirkomulag núna.