Atvinnuréttindi útlendinga

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 14:11:09 (4359)

2001-02-08 14:11:09# 126. lþ. 66.3 fundur 48. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (erlendir makar íslenskra ríkisborgara) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[14:11]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér á dagskrá þingsins er mál er varðar breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir mælti fyrir frv. en ég er ásamt henni og fleirum einn af flutningsmönnum þess.

Ég vil byrja á að taka undir það að frv. er ætlað að stoppa í ákveðin göt og reyna að tryggja ákveðið réttlæti til handa ákveðnum hópi. Málið varðar fyrst og fremst útlenskar konur þegar um skilnað er að ræða eða fráfall maka, sem væri í þeim tilfellum Íslendingur.

Það er mikið rétt að við í félmn. tókum ekki alls fyrir löngu fyrir þessa breytingu sem gerð var varðandi undanþágu vegna maka Íslendinga. Það var strax ákveðin réttarbót en í nefndinni var rætt um framhald þeirrar vinnu. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með vinnuna í nefnd þeirri er skoðar þessi mál. Það er ekki óeðlilegt, þegar málið fer til nefndarinnar, að þetta mál verði sent til hennar þannig að hún taki tillit til þessara þátta. Ég efast ekki um að svo verði.

Ég staldra hins vegar oft við hve erfitt hefur verið --- við höfum nýlega afgreitt yfirgripsmikil lög um málefni útlendinga --- í umræðum um málefni útlendinga að hafa þessi mál aðskilin. Það er spurning hvort ekki ætti að skoða í framhaldinu hvort þau mál ættu ekki öll heima í einum stórum lagapakka, líka atvinnuréttindin, þannig að við höfum heildarsýn á málaflokkinn og hann verði gagnsær þannig að gott verði fyrir fagaðila að vinna með hann þegar þeir þurfa að leiðbeina þeim sem heyra undir lögin. Ég vildi gjarnan sjá þá heildarhugsun þó svo að atvinnumálin verði alltaf á ábyrgð félmrn. og Vinnumálastofnunar. Ég mundi kjósa að heildarlögin væru þannig að hægt sé að átta sig á þessu.

Ég get tekið undir það að hluta að það má ekki stoppa svo í göt að maður búi til ný. Við þekkjum hættuna á gervihjónaböndum en það er hægt að tryggja að slíkt viðgangist ekki, bæði með orðalagi og öðru, m.a. með því að hjónabandið þurfi að gilda í ákveðinn tíma. Þetta á hins vegar ekki við við fráfall maka sem er svolítið annað heldur en þegar um skilnað er að ræða, þ.e. gervihjónabönd og snöggan skilnað. Flestallir þingmenn muna eftir svokölluðum sparimerkjagiftingum ætla ég að vona sem voru á árum áður nýttar til að fólk gæti tekið út sparnað sinn og eytt honum í einhverja bölvaða vitleysu í stað þess að nýta hann í eitthvað skynsamlegt.

Þetta er ekki mjög stórt frv., hér er um réttlætismál að ræða en því er ætlað að stoppa í ákveðin göt. Hópurinn sem frv. beinist að samanstendur fyrst og fremst af konum. Þetta er spurning um að tryggja hag þeirra þannig að kerfið vinni ekki gegn þeim. Ég hef fulla trú á því að nefndin sem áður var minnst á muni skoða málið með velvilja. Það er mjög ánægjulegt að þeirri vinnu fari að ljúka og ég efast ekki um að henni sé sinnt af góðum fagmönnum.