Atvinnuréttindi útlendinga

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 14:28:08 (4364)

2001-02-08 14:28:08# 126. lþ. 66.3 fundur 48. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (erlendir makar íslenskra ríkisborgara) frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[14:28]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir mjög miður að við skulum ekki geta fengið stuðning hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar við þetta einfalda réttlætismál því ég verð að segja að mér fyndist það alla vega mjög sorglegt ef einhver stúlka --- því þetta eru nú mjög oft stúlkur þótt svo sé ekki alltaf --- einhver sem kemur hingað og giftir sig og missir maka sinn, missi þar með atvinnuleyfið og verði að hrökklast úr landi svo fljótt sem auðið er. Mér fyndist það mjög sorglegt.

Hins vegar vil ég taka undir eitt sem hv. þm. sagði. Hann talaði um nauðsynlegt væri að útlendingar sem kæmu hingað til að vinna legðu sig fram við að aðlaga sig íslenskum aðstæðum. Ég vil taka undir það. Það er mjög nauðsynlegt að gera þá kröfu að útlendingar sæki alla vega grunnnám eða eitthvert frumnám í íslensku. En við þurfum þá líka að gera þá kröfu til atvinnurekenda, verkalýðsfélaganna og ríkisins í sameiningu að þeir sjái um að þetta nám sé í boði fyrir alla þá útlendinga sem í hlut eiga, því sumt af þessu fólki er verið að ráða á staði þar sem ekki hefur reynst mögulegt að bjóða upp á slíkt. Og það er mjög miður.