Atvinnuréttindi útlendinga

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 14:35:01 (4366)

2001-02-08 14:35:01# 126. lþ. 66.3 fundur 48. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (erlendir makar íslenskra ríkisborgara) frv., Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[14:35]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa ágætu umræðu sem hefur farið fram um þetta litla frv. sem þó felur í sér mikla réttarbót fyrir afmarkaðan hóp. Ég er sannfærð um að umræðan er gott veganesti, bæði fyrir félmn. sem mun fjalla um þetta þingmál og sömuleiðis nefnd hæstv. ráðherra sem er að vinna að endurbótum á lögum um atvinnuréttindi útlendinga.

Ég get tekið undir það sem kom fram í umræðunni að mikilvægt er að það sé heildarsýn yfir málefni útlendinga og atvinnumálin komi þar inn í.

Einnig er rétt sem komið hefur fram í umræðunni að þörf er fyrir þennan vinnukraft og þetta er yfirleitt mjög dugmikið fólk sem kemur hingað til vinnu. Ég veit eiginlega ekki hvernig staðan væri t.d. í ýmissi félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustunni ef við hefðum ekki alla þessa útlendinga sem hafa komið hingað og vinna þar mjög mikilvæg störf.

Aftur á móti eru auðvitað margir þættir sem þarf að huga að eins og hæstv. ráðherra kom inn á og fleiri hér í umræðunni. Sinna þarf þessum hópi betur og það þarf að sjá til þess að hann sé tryggður. Við getum ekki horft fram hjá því. Sé hann ekki tryggður samkvæmt íslenskum lögum þarf að sjá til þess að hann hafi sínar tryggingar.

Hæstv. ráðherra kom inn á það að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefði sem ráðherra sett þessi lög. Það er nú svo með ýmsa lagasetningu að hún verður úrelt á skömmum tíma og þarf auðvitað að vera í stöðugri endurnýjun. Og bara umræðan um málefni útlendinga, réttindi þeirra og annað er varðar útlendinga á Íslandi hefur auðvitað kallað á það að við skoðum þessi mál og hefur breytt afstöðu fólks til þessa hóps og menn eru farnir að leggja meiri áherslu á réttindamál þeirra.

Mér fannst á aðalfundi Vinnumálastofnunar í vetur öll sú úttekt mjög athyglisverð sem gerð hefur verið á málefnum útlendinga á Íslandi. Hæstv. ráðherra benti á að 40% af þeim sem voru hér fyrir fjórum árum væru hér enn og það segir að fólki líður vel.

Aftur á móti verð ég að nefna vegna ummæla hv. þm. Sjálfstfl. sem talaði hér fyrr í umræðunni að þeir aðilar sem þetta frv. varðar eru hér að vinna án þess að vera með atvinnuleyfi vegna þess að þeir eru með undanþágu. Þeir eru því að störfum, hafa sem sagt leyfi til að vinna hér án þess að þurfa að sækja um atvinnuleyfi. Og það er það sem einmitt hefur verið bent á í þessu máli að það væri e.t.v. affarasælla, og við teljum svo vera, að þeir fái óbundið leyfi frekar en að vera á undanþágu vegna þess að við hjúskap er viðkomandi útlendingur án nokkurs leyfis til að vinna á Íslandi og stendur mjög illa að vígi við fráfall maka eða við skilnað. Ef við hugsum um gervihjónabönd eða hagkvæmnishjónabönd eins og við höfum aðeins verið að ræða um, þá getur þessi lagagrein eins og hún er í dag kallað á það líka að fólk komi hingað og gifti sig til að geta unnið án þess að þurfa að sækja um atvinnuleyfi. Það eru því vissulega margar hliðar á þessum málum.

En hæstv. ráðherra hefur sagt hér í umræðunni að til standi að bæta stöðu þessa fólks. Það þurfum við að gera það. Við flutningsmenn frv. teljum nauðsynlegt að bæta réttarstöðu útlendinga. Ég er á því að það verði að gera á þann veg sem við leggjum hér fram, þ.e. að þeir fái óbundið leyfi þannig að þeir standi ekki illa að vígi við að hjónabandi ljúki. Ég vil einnig ítreka að þetta eru mestmegnis konur, þetta er því jafnréttismál. Og þetta er til að bæta stöðu útlendra kvenna á Íslandi sem starfa hér.

Herra forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þessa ágætu umræðu og er sannfærð um að þessu máli verður vel tekið í nefndinni og gerðar verði breytingar á lögum til hagsbóta fyrir þær konur og alla sem þetta mál varðar, þ.e. útlendinga sem eru í hjúskap með íslenskum ríkisborgurum og því hjónabandi lýkur, þannig að réttur þeirra verði tryggður við lok hjónabands.