Umboðsmaður aldraðra

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 14:40:36 (4367)

2001-02-08 14:40:36# 126. lþ. 66.5 fundur 117. mál: #A umboðsmaður aldraðra# þál., Flm. GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[14:40]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Hér er lögð fram þáltill., ekki í fyrsta sinn, á þskj. 117, 117. mál, um umboðsmann aldraðra.

Meðflutningsmenn mínir að þáltill. eru hv. þm. Guðjón Guðmundsson, Árni R. Árnason, Katrín Fjeldsted, Drífa Hjartardóttir, Stefanía Óskarsdóttir og Þorgerður K. Gunnarsdóttir. Þáltill. hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stofna embætti umboðsmanns aldraðra sem sinni gæslu hagsmuna og réttinda aldraðra.

Í greinargerð segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

Mikinn hluta starfsævi sinnar eru einstaklingar að búa sig undir áhyggjulaust ævikvöld og taka þá mið af gildandi lögum og reglum um aldraða þegar lagt er í sameiginlega sjóði almannatrygginga og séreignarsjóði lífeyrissjóðanna. Því er nauðsynlegt að stöðugleika sé gætt í hvívetna hvað varðar fjárhagslega afkomu aldraðra. Í vaxandi mæli eru byggðar fyrir aldraða sérstakar íbúðir sem verða að fullnægja ákveðnum skilyrðum. Á því hefur því miður orðið misbrestur enda þótt löggjafinn hafi reynt að hafa þar nokkur áhrif á.

Fjöldi aldraðra, um 4.000 manns, á lögheimili sitt á dvalar- og hjúkrunarheimilum þar sem félagsleg og persónuleg vandamál geta skapast, jafnvel deilumál milli nánustu ættingja um fjármál og eignir. Oft þurfa forstöðumenn og starfsfólk þessara hjúkrunar- eða vistheimila að blanda sér í slík mál til að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna og því væri augljóslega léttir fyrir starfsfólk vist- og hjúkrunarheimila að geta vísað þeim til umboðsmanns komi slíkar deilur upp.

Eftir því sem þeim fjölgar sem komast á eftirlaunaaldur vex þörfin fyrir sérhæfðari öldrunarþjónustu og allar líkur eru á að sama þróun verði hér og í öðrum löndum, að upp vaxi ný atvinnugrein sem leitast við að sinna þeim óskum aldraðra sem ekki er komið til móts við af hálfu hins opinbera. Löggjafanum ber að setja lagaramma um slíka starfsemi þar sem kveðið verði á um þau skilyrði sem einkaaðilum og opinberum aðilum, sem starfa að þessum málum, ber að uppfylla. Með heildarlöggjöf um umönnun aldraðra væri lagður grunnur að því að þeir sem kaupa öldrunarþjónustu fái þá þjónustu sem þeir vænta og þá þjónustu sem þeir eru að greiða fyrir.

Umboðsmanni aldraðra væri einnig ætlað að vinna að málum sem snerta sérstaklega hagsmuni aldraðra, fylgjast með því að stjórnvöld og einkaaðilar tækju fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna aldraðra og setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur í málum er snerta hag aldraðra á öllum sviðum samfélagsins.

Einnig væri umboðsmanni aldraðra ætlað að hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni aldraðra og stuðla að úrbótum á réttarreglum og stjórnsýslufyrirmælum sem snerta aldraða.

Eins og ég sagði, herra forseti, er þetta ekki í fyrsta sinn sem þessi þáltill. er lögð fram. En segja má að fram hafi komið frá fjmrn. við athugasemdir um þessa þáltill. varðandi kostnaðarhliðina, að fjmrn. lítur svo á að kostnaður mundi verða um 10 millj. kr. á ári vegna umboðsmanns og þeirrar skrifstofu sem hann kynni að reka.

Margt hefur komið fram frá því ég og hv. meðflutningsmenn mínir lögðum þáltill. fram fyrir um þremur árum sem sýnir fram á að hér er um mikið þarfamál að ræða. Til dæmis spurði ég hæstv. viðskrh. ekki alls fyrir löngu hverjar innstæður væru á sparisjóðsbókum sem ekki hafa hreyfst á sl. 15 ár. Og enn fremur hve háar upphæðir væru á almennum sparisjóðsbókum sem væru undir venjulegri ávöxtun.

[14:45]

Í svari viðskrh. kom m.a. fram að almennar sparisjóðsbækur sem ekki hafa hreyfst sl. 15 ár væru á fjórða þúsund og þar væru innstæður yfir 30 millj. Jafnframt var talað um að 216 þúsund bækur væru orðnar 20 ára og eldri og væru komnar á sérstakan biðreikning, og þar væri upphæðin tæpar 70 millj. sem ekki hefði verið hreyft við. Það er því mjög sérstakt þegar litið er til þessa máls. Enn fremur kemur það ekki fram sem kannski skiptir máli og það er að margir aldraðir stofna til sérstakra bankabóka, hafa jafnvel gert það á sínum ungdómsárum og ekki fylgt eftir þeirri þróun og þeim sífelldu breytingum sem bankar og sparisjóðir hafa verið að gera í tímans rás, t.d. hvað áhrærir vaxtabreytingar o.s.frv. Við þekkjum trompbækur, gullbækur og hvaða nafni þær allar nefnast. Það er enginn til þess að fylgjast með þessu. Enginn er til þess að gefa öldruðum góð ráð sem halda e.t.v. tryggð við eitthvert ákveðið númer bankabókar.

Í annan stað, herra forseti. Ég gat um það áðan að núna væru tæp 4.000 vistrými á hjúkrunar- og dvalarheimilum og þeim á eftir að fjölga. Miklar umbreytingar hafa orðið í þjóðfélaginu. Margt fólk á eignir, bæði fasteignir og peninga og það er enginn sem gætir hagsmuna þeirra þegar aldurinn segir til sín og minni brestur og geta til þess að hugsa um sín eigin fjármál. Þá eru það bara ættingjarnir. Og oftar en ekki hefur það komið upp að ættingjar hafa sótt á eignirnar, leitað jafnvel til starfsfólks hjúkrunarheimila og beðið það um að skrifa undir og ganga frá kvittun þar sem staðfest væri að hinn aldraði sem væri að ganga frá erfðaskrá sinni væri alheill. Og það gerist kannski eftir ítrekaðar tilraunir að sá aldraði gefst upp og beygir sig fyrir því sem aðrir vilja án þess að raunverulegur vilji sé fyrir hendi. Hvert á sá aldraði að leita? Til starfsstúlkunnar á hjúkrunarheimilinu? Til læknisins? Eða hvert?

Það ber líka dálítið á öðru. Nú um nokkurn tíma hefur sá háttur verið hafður á hjá ágætum félagsskap eins og Krabbameinsfélaginu o.fl., sem sent hefur út bréf til fólks að boðað það til krabbameinsskoðunar, að því er hætt þegar viðkomandi aðili verður sjötugur. Kona sem hefur farið reglulega í brjóstakrabbameinsskoðun, er ekki lengur boðuð þegar hún er orðin sjötug. Hins vegar veit ég og hef kynnt mér það að allar dyr standa opnar fyrir þeim sem vilja leita þangað. En af hverju skyldi bréfasendingum vera hætt? Er það eðlilegt?

Í nýjum lögum um réttindi sjúklinga stendur að ekki skuli mismuna fólki eftir kyni eða búsetu. Þar stóð áður: eða aldri. Það var tekið út úr lögunum, því miður, og talið að þess þyrfti ekki. Nokkur upptalning er á því hverjir skuli njóta réttarins en samt sáu menn ástæðu til þess að taka út þetta ákvæði varðandi aldurinn.

Fram kom í umræðum hér áðan réttleysið sem útlendingar ættu við að búa ef þeir væru búnir að vera skemur en sex mánuði á Íslandi. Hvernig er staða aldraðra sem hyggjast búa á erlendri grund í sex mánuði eða eru u.þ.b. sex mánuði erlendis en koma svo hingað heim aftur? Hver er þeirra réttarstaða? Er hún ekki sú sama og hjá útlendingunum? Er hún ekki sú sama og hjá námsmönnum sem eru lengur en sex mánuði erlendis? (Gripið fram í.)

Það er í mörg horn að líta, herra forseti, og vissulega er full ástæða til að þetta mál verði tekið alvarlega til skoðunar í heilbr.- og trn. En ég vildi þó aðeins geta þess að umsagnir bárust frá fjölmörgum aðilum þegar þessi mál voru hér til umræðu, líklega á 122. eða 123. þingi, og þær voru flestar jákvæðar. Formaður Landssambands eldri borgara sagði í blaðaviðtali 20. október í fyrra þegar hann var spurður um álit á þessu máli, með leyfi forseta:

,,Benedikt Davíðsson, formaður Landssambands eldri borgara, segir sjálfsagt að skoða tillögu þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að stofnað verði embætti umboðsmanns aldraðra sem sinni gæslu hagsmuna og réttinda aldraðra. Segist hann jákvæður fyrir því að embættið verði að veruleika.``

Tillaga um að stofnað verði embætti umboðsmanns aldraðra er af hinu góða.

,,Ef svona embætti verður stofnað er líklegt að það verði stofnun sem bæði stjórnvöld og aðrir aðilar verði að taka mark á og þar af leiðandi getur þetta orðið að verulegu gagni. Á heildina litið er ég því mjög jákvæður fyrir því að embættið verði að veruleika en það verður auðvitað að meta það hve mikið við ætlum að leggja í það.``

Þetta segir formaður Landssambands eldri borgara, Benedikt Davíðsson.

Einnig vil ég vitna til forustugreinar Morgunblaðsins frá sama tíma, eða 19. október. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Reynslan af embættum umboðsmanns Alþingis og umboðsmanns barna er góð. Þar eru til staðar embætti sem hinn almenni borgari getur snúið sér til með margvísleg málefni sem varða samskipti hans við stjórnvöld. Umboðsmenn hafa haft margvísleg áhrif á gang mála og þau hafa verið jákvæð.

Hlutfall aldraðra af heildaríbúafjölda landsins fer vaxandi. Þjóðfélagsumræður einkennast í auknum mæli af umfjöllun um málefni aldraðra.

Þar ber kjaramál þeirra hátt þessa dagana en einnig skiptir miklu máli, að búa í haginn fyrir aldraða að öðru leyti bæði varðandi heilbrigðisþjónustu og húsnæðismál.

Þá bryddir nú á umræðum um að sú regla sem lengi hefur verið í gildi, að fólk ljúki starfsævi sinni um sjötugt, eigi ekki lengur við. Fólk á þessum aldri sé nú við mun betri heilsu en áður og engin ástæða til að dæma það út af vinnumarkaðnum á forsendum liðins tíma. Umræður um þetta mál eiga vafalaust eftir að aukast og þá jafnframt hvaða hlutverki eðlilegt sé, að þeir sem komnir eru yfir sjötugt gegni í atvinnulífinu.

Á næstu árum mun ekki draga úr umræðum um málefni aldraðra. Þvert á móti munu þær aukast. Ljóst er að margir í hópi aldraðra telja sig búa við skertan hag og að þeim gangi illa að leita réttar síns.``

Svo mörg voru þau orð.

Herra forseti. Ég vék aðeins að því áðan að þau mál sem hér þyrfti að líta til væru margþætt. Nú kunna auðvitað einhverjir að segja það sem áður hefur komið fram í umræðunni: Af hverju umboðsmann aldraðra? Af hverju ekki umboðsmann ferðalanga? Af hverju ekki umboðsmann allra starfsstétta o.s.frv.?

Eins og ég nefndi og vitnað er til í forustugrein Morgunblaðsins þar sem getið er um umboðsmann Alþingis og umboðsmann barna þá eru aldraðir öðruvísi í sveit settir en þeir sem eru á milli þess að vera orðnir fullorðnir og hinna sem farið er að halla heldur undan fæti hjá áranna vegna. Það er munur á þeim sem eru orðnir aldraðir og þeim sem stunda fulla vinnu. Eins og ég tók fram í upphafi máls míns þá eru þeir um 4.000 á hjúkrunarheimilum og vistheimilum og fjölmargir að sjálfsögðu, sem betur fer, búa við þá heilsu að geta verið heima. En þótt heilsan, hin líkamlega heilsa, sé góð þarf það ekki alltaf að fara saman að sú andlega fylgi þar með. Og þess vegna m.a., eins og ég kom að í upphafi máls míns, er full nauðsyn á að þeir aldraðir sem vilja og þurfa á að halda, og þeir eru margir, geti leitað til einhvers sem getur leiðbeint þeim og hreinlega varið þá gegn utanaðkomandi áhrifum vegna þess að þeir eiga til peninga og fasteignir.