Umboðsmaður aldraðra

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 15:06:54 (4371)

2001-02-08 15:06:54# 126. lþ. 66.5 fundur 117. mál: #A umboðsmaður aldraðra# þál., Flm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Það ber allt að sama brunni. Menn eru komnir frá málinu. Þeir eru komnir langt á undan því máli sem við erum að tala um. Málið snýst um það hvort þingmenn eru sammála um að sett verði á laggirnar embætti umboðsmanns aldraðra til að gæta hagsmuna þeirra. Við erum ekki að tala um vandann í dag eða í gær. Við getum deilt um það. En það sem umboðsmaður aldraðra á að gera er einmitt að gæta hagsmuna þeirra og leiða mönnum fyrir sjónir hver vandinn er.

Við vitum einnig eins og ég sagði áðan að um 4.000 manns eru á vist- og hjúkrunarheimilum og það er vel séð fyrir þeim. Að flestu leyti er það fólk þannig komið að það á ekki fyrir greiðslum, þ.e. daggjöldum vegna þeirrar umönnunar sem þar er veitt. Við vitum einnig að lífeyrissjóðirnir eru ekki eldri en síðan 1970 flestir hverjir og við vitum að það verður ekki fyrr en eftir um 15 ár sem þeir fara að borga þau eftirlaun sem við teljum að séu eðlileg miðað við þann lífsstandard sem við höfum valið okkur. Þar eru menn mjög mismunandi settir vegna þess að þeir gátu keypt sér tryggingar en þeir gerðu það ekki. En nú er ég kannski kominn í sama farið og hv. þm. áðan og er farinn að tala um allt annað en það sem málið snýst um. Þetta snýst um hvort þingheimur standi með okkur flutningsmönnum að þáltill. um að sett verði á fót embætti umboðsmanns aldraðra.