Umboðsmaður aldraðra

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 15:08:34 (4372)

2001-02-08 15:08:34# 126. lþ. 66.5 fundur 117. mál: #A umboðsmaður aldraðra# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. var einmitt alveg á réttu róli. Hér er verið að tala um hagsmuni aldraðra, réttindi og hagsmunagæslu þeirra og það er einmitt það sem við erum að ræða. Hv. þm. segir að hlutverk umboðsmanns sé að gæta þessara hagsmuna. En það er einnig hlutverk alþingismanna sem eru hér á þingi og setja lög og reglur um réttindi þessa fólks. Auðvitað er það einnig okkar að standa vörð um rétt og hagsmuni þess hóps sem aldraðir eru.

Herra forseti. Hv. þm. talaði um öldrunarstofnanirnar og ég geti verið sammála ýmsu sem hann sagði í andsvari. Aftur á móti vil ég benda á annað atriði sem fyrrv. landlæknir, Ólafur Ólafsson, nefnir í grein sinni en það er að í desember biðu 560 manns eftir vist eða dvöl á hjúkrunar- og dvalarheimilum og þar af voru 230 í brýnni þörf. Þar er því mikill vandi sem við þurfum að huga að og hagsmunum þess fólks sem bíður í brýnni þörf heima, kannski við mismunandi aðstæður eftir því að fá úrlausn sinna mála og ég held að við getum alveg verið sammála um það.

Auðvitað snýst þessi umræða öll um hagsmuni og réttindi, í þessu tilfelli aldraðra, og þess vegna vill sá hópur koma með umboðsmann. En það fríar ekki þingmenn frá þeirri ábyrgð sem þeir bera hér inni um að gæta hagsmuna þessa hóps, við lagasetningu og við þær reglur sem við setjum í samfélaginu.