Umboðsmaður aldraðra

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 15:11:37 (4373)

2001-02-08 15:11:37# 126. lþ. 66.5 fundur 117. mál: #A umboðsmaður aldraðra# þál., DSigf
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[15:11]

Drífa J. Sigfúsdóttir:

Herra forseti. Mig langar að ræða aðeins um þáltill. um umboðsmann aldraðra og ég held að aðeins gott eitt vaki fyrir flm., hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni. Ég held að það sé rétt að halda þarf utan um málefni aldraðra og mér finnst að ýmsu leyti mjög eðlilegt að fram komi þáltill. um þetta efni þar sem margir aldraðir standa höllum fæti. Ég held hins vegar að það séu ýmsir aðrir hópar sem við þurfum að horfa á sem ekkert síður standa höllum fæti og þá velti ég því fyrir mér við hvaða þjónustustig fólk býr.

Aldraðir, t.d. á Suðurnesjum, búa við mun hærra þjónustustig en fatlaðir. Mikið fé vantar til fatlaðra í Reykjavík og Reykjanesi þannig að þjónustustig sem veitt er þeim hópi er lægra en aldraðra. Ég hef stundum velt því fyrir mér að barnafjölskyldur búa sums staðar við lakari kjör en margir aldraðir. Margir aldraðir hafa það ljómandi gott þó svo að inni á milli séu aldraðir sem þurfa á mikilli aðstoð að halda og búi við erfið kjör.

Ég held hins vegar að ef við förum að skipta litlu fé á milli margra aðila verði erfitt að skipta því réttlátlega niður. Ég held að eðlilegra sé að við mundum frekar stofna embætti umboðsmanns neytenda. Ég hef séð það í störfum mínum fyrir neytendur hvað slíkur umboðsmaður hefur gert eins og t.d. í Svíþjóð. Hann sinnir einmitt þeim hópi sem flestallir landsmenn tilheyra. Það er miklu stærri hópur en aðeins aldraðir. Næstum allir landsmenn eru neytendur.

Neytendur standa mjög höllum fæti. Þegar þeir eru í málarekstri, þá eru fyrirtækin með fagþekkinguna. Þau eru með völdin og fólkið sem veit allt um stöðu mála. Þau hafa féð og þess vegna er staðan mjög ójöfn. Við þekkjum t.d. stöðuna gagnvart fjármálafyrirtækjum. Þar er þekkingin og síðan kemur neytandinn sem á erfitt með að ná fram rétti sínum. Við þekkjum það þegar við kaupum hús o.s.frv. Til eru fjölmargar nefndir sem taka á ýmsum deilumálum en það er eins og frumskógur fyrir almenning að leita sér upplýsinga. Oft er það svo að ef við kaupum t.d. gallaða peysu er dýrt að fara að sækja málið af því að hluturinn sem við erum að deila um er smár. En það eru mörg slík mál sem neytendur lenda gjarnan í og eiga erfitt með að sækja rétt sinn. Ég held að mjög mikilvægt sé að hinn stóri hópur, sem eru flestallir landsmenn sem eru neytendur, eignist talsmann sem væri umboðsmaður neytenda. Í Svíþjóð hef ég skoðað mjög athyglisverða skýrslu þar sem þeir hafa tekið á réttindamálum sem snerta fatlaða, öryrkja, aldraða o.s.frv. Til dæmis er mjög athyglisverð skýrsla um aðgengi fatlaðra að tækni.

Þeir hafa farið þá leið að búa til hópa sem halda utan um það að sú tækni sem verið er að bjóða henti öllum, ekki bara venjulegum neytanda heldur t.d. að allir sjái á skjáinn í hraðbanka, hvort sem menn eru í hjólastól, standa eða sjá illa. Þegar menn fara í flugstöð sjái þeir á skjáinn o.s.frv. Ég held að við gætum, miðað við það sem þeir eru búnir að gera, flutt inn dálítið af þeirri þekkingu með því að vera með umboðsmann fyrir neytendur, bætt bæði aðgengi fyrir fatlaða og líka auðveldað neytendum leiðina gegnum þennan frumskóg af flóknu kerfi sem við búum við.

Ég vil taka fram að á síðustu árum hefur Alþingi samþykkt margháttaða löggjöf sem er til mikilla framfara fyrir neytendur og eiga þingmenn þakkir skildar fyrir að hafa sinnt því starfi því mjög margt hefur áunnist gagnvart neytendum. En ég held að mjög mikilvægt sé þegar við veljum að taka upp embætti sem þetta, sem ég held að sé mjög athyglisvert og jákvætt, að við horfum á stærri heildir, og að við sinnum þeim þá frekar og aldraðir mundu njóta þar þjónustu á við aðra landsmenn. Þess vegna held ég að mikilvægt væri að skoða það sem einn af valkostunum, þ.e. að stofna embætti umboðsmanns neytenda. Ég tel að það ætti að standa framar í röðinni og að aldraðir mundu þá njóta réttar síns til jafns við aðra.