Umboðsmaður aldraðra

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 15:26:58 (4378)

2001-02-08 15:26:58# 126. lþ. 66.5 fundur 117. mál: #A umboðsmaður aldraðra# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[15:26]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil taka undir þakkir annarra hv. ræðumanna til hv. flm. Guðmundar Hallvarðssonar vegna þessa máls um umboðsmann aldraðra. Það er reyndar dálítið ankannalegt, eins og hv. þm. nefndi og ég hef rekist á dæmi um, að það þurfi að verja aldraða fyrir börnum þeirra og ættingjum sem ásælast eignir þeirra. En það eru nokkur dæmi um þetta og má vel vera að það þurfi umboðsmann til að gæta þessara hagsmuna. Einnig til að gæta hagsmuna aldraðra gagnvart bönkum sem greiða vexti sem eru sannarlega allt of lágir á hina almennu sparisjóðsbók. Af þessum vöxtum sem eru langt undir verðbólgu er meira að segja tekinn 10% fjármagnstekjuskattur.

Hins vegar finnst mér vanta inn í umræðuna að það þarf að leiðbeina öldruðum gagnvart kerfinu, gagnvart hinu óskaplega flókna bótakerfi velferðarkerfisins sem eru almannatryggingar með yfir 100 tegundir lífeyris, sem eru eitthvað um 50 starfandi lífeyrissjóðir, sem er Félagsþjónustan með margbrotnum reglum, mismunandi eftir sveitarfélögum, og sem eru skattalögin sem taka á þessu öllu saman. Þarna stendur hinn aldraði oft mjög berskjaldaður sem og aðrir landsmenn, herra forseti.

Ég vildi koma þessu að og síðan vildi ég geta þess að eignarskattur kemur oft mjög illa niður á öldruðum og sérstaklega þegar annar maki fellur frá þá er hinn allt í einu orðinn stóreignamaður og borgar eignarskatt þegar hann má síst við því. Það eru því ýmis atriði sem þarf að gæta að hjá öldruðum og þannig séð er embætti umboðsmanns aldraðra gott mál.

En það er hægt að hugsa sér mjög marga umboðsmenn eins og hér hefur komið fram, sjúklinga, fatlaðra, neytenda, fanga, öryrkja o.s.frv. Það er spurning hvort ekki hleypur verðbólga í hugtakið umboðsmaður þannig að umboðsmenn fari að minnka í gildi hver og einn. Ég mundi heldur leggja til, herra forseti, að hv. þm. reyndu að hanna þau kerfi sem þeir eru að búa til einfaldari þannig að borgarinn geti skilið þau. Ég leyfi mér nánast að fullyrða að sárafáir aldraðir eða öryrkjar, jafnvel fólk sem hefur alla ævi starfað við flókin störf og bráðgreint fólk, skilji til hlítar af hverju þeir fá 15.132 kr. úr einhverju kerfinu en ekki 15.160.

Kerfið er orðið svo flókið að fólkið tekur nánast það sem að því er rétt. Ég hef margoft rekist á það að menn vita ekki um rétt sinn.

Menn eru að kvarta undan því að þeir fái strípaða taxta hjá almannatryggingum en vita ekki t.d. að þeir eigi rétt á örorkulífeyri hjá lífeyrissjóðnum sínum eða ellilífeyri héðan og þaðan úr mörgum lífeyrissjóðum. Ég held að það væri nú nær að reyna að einfalda kerfið sem við hv. þm. höfum byggt upp meira og minna með endalausum stagbætingum. Ég held að kominn sé tími til að taka almennt séð og heilsteypt á velferðarkerfinu öllu saman eins og við ræddum hér fyrr í dag um skaðabótalögin, að taka á öllu velferðarkerfinu sem einni heild en ekki alltaf vera að líta á eina eða eina skúffu í kommóðunni og gleyma kommóðunni í heild sinni.