Umboðsmaður aldraðra

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 15:30:54 (4379)

2001-02-08 15:30:54# 126. lþ. 66.5 fundur 117. mál: #A umboðsmaður aldraðra# þál., Flm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[15:30]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa talað í þessu máli og jákvæðni þeirra. Hins vegar hafa menn mismunandi skoðanir á þörfinni en eins og allir þekkja verður maður tvisvar barn. Ég hrökk við þegar enginn hafði athugasemd við það að færa að til væri umboðsmaður barna. Menn vilja frekar gefa í og bæta við fleiri umboðsmönnum en að fallast á þetta mál, a.m.k. öðruvísi en með einhverjum ívöfum og athugasemdum. Það er vel svo langt sem það nær.

Ég tel hins vegar að talsverður munur sé á þeim sem eru heilbrigðir andlega og þeim sem er farið að förlast hugsun aldurs vegna. Þeir eru að ljúka löngu ævistarfi og hafa ýmislegs að gæta, svo sem eigna og fjármuna eins og ég kom að áðan, og m.a. þess vegna er þetta til komið og líka vegna þess --- og það er kannski til umhugsunar fyrir hv. heilbr.- og trn. --- að í langan tíma hefur það gengið fram hjá heilbrigðisráðherrum umliðinna ríkisstjórna að þeir hafa meiri áhuga á því að setja einhverja stjórnarmenn á hjúkrunarheimili og dvalarheimili en að senda sendiboða sinn frá ráðuneytinu til að fylgjast með því hvað ráðuneytið borgar fyrir í þjónustuþætti þessara stofnana, hvernig þjónustan er veitt. Það eru hlutir sem þarf að athuga. Það er m.a. þetta sem ég er að koma að. Margir aldraðir eru farnir að borga hluta af dvalargjöldum og ekkert er fylgst með því hvaða þjónustu þeir fá og hvort hún sé í samræmi við reglugerð sem á að vera til.

Við stöndum einnig frammi fyrir því að yfir 30 þúsund Íslendingar eru 67 ára og aldri og þeim fjölgar. Það er m.a. þess vegna sem ég tel fulla ástæðu til að koma að málinu.

Hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á að m.a. væri líka nauðsynlegt að líta til þessa máls með tilliti til starfsloka, sveigjanlegra starfsloka. Fyrir þremur árum flutti ég í fyrsta sinn þáltill. um sveigjanleg starfslok og sú þáltill. var samþykkt á vordögum, ef ég man rétt. Forsrh. hefur nú þegar skipað nefnd til að fara ofan í saumana á þessu máli sem er mjög stórtækt, yfirgripsmikið, og gert er ráð fyrir að nefndin skili af sér fyrir árslok 2002.

Ég held að ég fari ekki frekar ofan í saumana á þessu að öðru leyti en því að geta þess að Jón Bjarnason nefndi að við hefðum lögreglustjóra o.s.frv. Jú, við höfum sálfræðinga, félagsfræðinga, ráðgjafa, lögfræðinga og allt. En hvar er heimild þeirra til þess að grípa inn í missætti í fjölskyldum þeira yngri og eldri, t.d. vegna fjármuna og fasteigna? Hvar er það vald? Ef sá aldraði getur ekki varið sig hefur enginn heimild til að grípa þar inn í. Þannig eru málin. Það er alveg eins og með börnin. Hvernig eiga þau að leita réttar síns? Þess vegna er líkt á komið með þessum tveim hópum, þeir þurfa umboðsmann.

Að lokum, herra forseti, endurtek ég þakkir mínar til þingmanna fyrir þátttöku í málinu og legg til að að lokinni umræðunni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.