Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 15:48:53 (4381)

2001-02-08 15:48:53# 126. lþ. 66.8 fundur 171. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (afli utan kvóta) frv., Flm. PHB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[15:48]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

1. gr. frv. er svohljóðandi:

,,Í stað 2. mgr. 3. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi: Skipstjóri skal við löndun ákveða hvaða hluti af afla skips skuli telja til kvóta sem skipið ræður yfir.

Afli skips annar en sá sem tilgreindur er í 2. mgr. telst eign Hafrannsóknastofnunarinnar. Útgerð skipsins skal sjá um að selja afla Hafrannsóknastofnunarinnar og greiða henni söluverðmætið að frádregnu gjaldi vegna kostnaðar við flutning í land, geymslu, löndun og sölumeðferð aflans.

Gjald skv. 3. mgr. skal lægst vera 5% og hæst 15% af vergu söluandvirði aflans. Það skal ákveðið í reglugerð með hliðsjón af tegund og gerð afla, veiðum og framboði slíks afla og renna til útgerðar skips. Skal það koma til hlutaskipta eins og annað aflaverðmæti.``

2. gr. hljóðar svo:

,,Á eftir 4. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna bætist við nýr málsliður, svohljóðandi: Afla Hafrannsóknastofnunarinnar skal halda aðgreindum frá afla útgerðar og vega sérstaklega.``

3. gr. kveður á um að lög þessi öðlist þegar gildi

Herra forseti. Þáltill. og lagafrumvörp, breytingafrumvörp, hafa komið fram þrisvar sinnum áður um þetta efni. Hér er verið að taka á ákveðnum vanda sem hefur verið mikið í umræðunni, þ.e. brottkasti.

Í grg. með frv. til laga nr. 57/1996 kemur fram að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að fiski sé varpað fyrir borð og landað fram hjá vigt. Margt hefur verið gert til að koma í veg fyrir þetta en að mati flutningsmanns og margra annarra er ljóst að markmið laganna hefur ekki náðst að öllu leyti og töluvert er um að afla sé hent frá borði. Í ljósi þess er þessi tillaga flutt.

Eins og lög nr. 57/1996 eru úr garði gerð verður að telja að rökfræðileg mótsögn sé á milli 1. mgr. 2. gr. þar sem segir: ,,Skylt er að hirða og koma með að landi allan afla`` og 2. mgr. 3. gr. þar sem segir: ,,Óheimilt er að hefja veiðiferð skips sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni nema skipið hafi aflaheimildir sem telja má líklegt að dugi fyrir afla í ferðinni með hliðsjón af þeim veiðarfærum sem notuð eru.``

Flutningsmaður og reyndar fleiri álíta að ekki sé mögulegt að sjá fyrir hvaða afli muni berast upp með veiðarfærum og í hvaða magni. Þannig yrði sérhvert skipa að eiga veiðiheimildir í öllum tegundum en það er ekki raunhæft. Þessi lagaákvæði koma fólki því oft í þá aðstöðu að verða að brjóta lög.

Í frv. er lagt til að 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, verði felld brott og í hennar stað komi þrjár nýjar málsgreinar sem feli í sér að skipstjóra sé heimilt að ákvarða hve mikill hluti afla skips teljist til kvóta þess en allur annar afli teljist eign Hafrannsóknastofnunar. Þetta yrði þá í samræmi við ákvæði 1. mgr. 2. gr. laganna þar sem segir að skylt sé að hirða og koma með allan afla að landi án þess að tekið sé fram hvað um allan þann afla verður. Hér er tekið á því. Hann er annaðhvort eign útgerðarinnar og telst sem kvóti hennar eða eign Hafró. Eigi útgerðin ekki kvóta fyrir aflanum verður hann að sjálfsögðu eign Hafró.

Í frv. er enn fremur gert ráð fyrir að útgerðinni verði greitt upp í kostnað við að flytja aflann, landa honum, geyma hann og sjá um sölu hans. Með þessu fyrirkomulagi yrðu minni líkur á að afla yrði hent. Að mati flutningsmanns er slæmt að henda góðum fiski sem slæðist eðlilega með í mismiklu magni. Sá fiskur, sem núna er veiddur og hent, mun skila sér í land ef frv. þetta verður að lögum. Nú er hins vegar beinlínis refsivert að koma með afla umfram aflaheimildir að landi, sbr. 14. og 23. gr. laganna.

Gjaldið sem útgerðin fengi fyrir að flytja aflann í land, landa honum, geyma hann og sjá um sölu hans yrði á bilinu 5--15% af vergu söluandvirði aflans. Það yrði ákveðið af sjútvrh. með hliðsjón af tegund afla, gerð hans, veiðum og framboði slíks afla. Þannig gæti verið annað gjald fyrir þorsk en síld, smáfisk eða stóran fisk, gamlan fisk og skemmdan eða nýjan fisk, sumarveiðar og vetrarveiðar. Þá mætti enn fremur greiða lægri prósentutölu eftir því sem verðmæti fisksins væri meira og öfugt. Eins og annað aflaverðmæti kæmi gjaldið til hlutaskipta. Mikilvægt er að gjaldið verði nægilega hátt til að hvetja sjómenn til að koma með aflann að landi en þó ekki svo hátt að sjómenn fari að gera út á þann afla.

Herra forseti. Fernt mun hvetja sjómenn til að koma með utankvótaafla að landi, sem þeir gera í einhverjum mæli ekki núna. Í fyrsta lagi færu þeir að lögum og gætu farið að lögum. Í öðru lagi fengju þeir nokkurt verð fyrir aflann. Í þriðja lagi þykir flestum leitt að henda verðmætum og það er veigamikið atriði. Sjómönnum þykir hart að henda góðum fiski. Að síðustu rynni verðmæti aflans til rannsókna fyrir sjávarútveginn.

Þessi aðferð hefur kosti og galla. Búast má við að miklu meiri afli bærist að landi. Bæði mundi allur sá afli sem nú er hent berast að landi, sem að sjálfsögðu er mikill kostur því að þessi fiskur er deyddur hvort sem er. Jafnframt mundu útgerðir ekki forðast, eins og núna, þau mið sem mest gefa af bönnuðum meðafla, t.d. af þorski. Þannig mundu utankvótaveiðar aukast eitthvað. Þetta er að sjálfsögðu ljóður á þessari reglu en á móti kemur að allur þessi afli kæmi að landi og nýttist þjóðfélaginu. Auk þess yrði þá vitað með meiri vissu hve mikið veiddist en það liggur ekki fyrir núna vegna brottkastsins. Fiskifræðingar vita ekki hvað brottkastið er mikið og tölur eru á reiki um það. Verðmæti þessa utankvótaafla yrði auk þess lyftistöng fyrir sjávarrannsóknir og létti byrðum af ríkissjóði.

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. flutti í haust frv. sem reyndar var lagt fram sama dag og þetta frv. Það var afgreitt sem lög í desember. Þar er farin önnur leið til að leysa sama vanda, þ.e. að setja um borð í fiskiskip eftirlitsmenn ef Fiskistofa telur að afli tiltekins skips sé að stærðarsamsetningu, aflasamsetningu og gæðum frábrugðinn afla annarra skipa. Þetta er regla sem ég tel að mörgu leyti slæma. Í fyrsta lagi minnir þetta illilega á lögregluríki. Þarna er einhver opinber stofnun sem getur lagt á það huglægt mat hvort þörf sé á eftirlitsmönnum. Menn gleyma hinum sálrænu atriðum í samskiptum fólks. Þegar eftirlitsmaður hefur verið nokkra daga um borð í með sjómönnum fer hann kannski að finna til ákveðinnar samkenndar og er því kannski ekki eins gagnrýninn á þau störf sem þar eru unnin. Hann hefur kannski skilning á því að menn telji sig þurfa að henda fiski. Ég held því að þetta kerfi sé ekki sérstaklega æskilegt frá neinu sjónarmiði.

Ég held að sú regla sem lögð er til í því frv. sem við ræðum hér sé að mörgu leyti betri. Hún er að mínu mati eðlilegri, menn geta valið um það þegar þeir koma í land hvað af aflanum fellur undir kvóta skipsins. Þetta frv. fékk því miður ekki umræðu áður en frv. hæstv. sjútvrh. varð að lögum og sú leið sem þetta frv. gerir ráð fyrir kom ekki til umræðu, hennar er hvergi getið þó að hún hafi legið fyrir Alþingi. Hennar er hvergi getið í nál. sjútvn. um frv. hæstv. sjútvrh. sem er dálítið merkilegt því að þetta er frv. sem tekst á við nákvæmlega sama vanda. Eðlilegt hefði verið að hv. sjútvn. fjallaði um slíka aðferð um leið og hún fjallaði um frv. hæstv. sjútvrh. sem tókst á við nákvæmlega sama vanda.

Ég tel, herra forseti, að tillagan sem ég mæli fyrir hér hafi á margan hátt hljómgrunn meðal sjómanna og útgerðarmanna. Þeir átta sig á því því hve brýnt er að leysa þennan vanda, ég vil segja, þessa rökleysu sem nú er í lögunum, að mönnum sé skylt að koma allan afla að landi en megi það í sumum tilfellum ekki ef þeir eiga ekki kvóta fyrir honum. Þeir neyðast því til að brjóta lög. Ég tel að það sé slæmur hlutur og mjög dýrt kerfi eftirlitsmanna tel ég heldur ekki gott fyrir utan það að það getur aldrei verið skothelt.

Herra forseti. Ég hef reifað rök með og á móti þessu frv. Það hefur svo sem verið gert mörgum sinnum áður. Ég vona að hv. sjútvn., sem ég legg til að málinu verði vísað til, fjalli um þetta mál sjálfstætt og fari í gegnum þær umsagnir sem borist hafa. Hún mun væntanlega biðja um þær til að fá skýrari mynd af þessu dæmi. Ég held að sú leið sem farin var með eftirlitsmönnunum muni því miður ekki leysa þann vanda sem við er að glíma.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.