Þingmennskuafsal Sighvats Björgvinssonar

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 15:03:04 (4392)

2001-02-12 15:03:04# 126. lþ. 67.92 fundur 286#B þingmennskuafsal Sighvats Björgvinssonar#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[15:03]

Forseti (Halldór Blöndal):

Mér hefur í dag borist svohljóðandi bréf frá hv. 2. þm. Vestf., Sighvati Björgvinssyni, dags. 12. febr. 2001:

,,Til forseta Alþingis, herra Halldórs Blöndals.

Þar sem ég hef verið ráðinn til starfa sem framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands segi ég hér með af mér þingmennsku.

Ég vil biðja þig að koma á framfæri við þingmenn kveðju minni og þökkum fyrir langt og gott samstarf á Alþingi Íslendinga jafnframt sem ég óska Alþingi og alþingismönnum allra heilla í störfum í framtíðinni.

Þér vil ég þakka sérstaklega fyrir langt og traust samstarf sem við höfum átt allt frá því að leiðir okkar lágu saman í Menntaskólanum á Akureyri fyrir meira en þremur áratugum.

Með kveðju,

Sighvatur Björgvinsson.``

Við þingmennskuafsal Sighvats Björgvinssonar hverfur af þingi litríkur persónuleiki og maður sem hefur verið virkur þátttakandi í stjórnmálalífi þjóðarinnar í nærfellt fjóra áratugi. Sighvatur var fyrst kosinn á þing 1974 fyrir Alþfl. úr Vestfjarðakjördæmi og hefur setið á 30 þingum. Hann hefur tvívegis gegnt ráðherrastörfum, fyrst 1979 og síðan 1991, samtals í á fimmta ár.

Sighvatur Björgvinsson hefur verið í forustuhlutverki á Alþingi sem formaður þingflokks um fimm ára skeið, formaður fjárln. eitt kjörtímabil og loks flokksformaður 1996--1999.

Við þessi þáttaskil í lífi Sighvats Björgvinssonar vil ég færa honum þakkir fyrir störf sem hann hefur unnið á vettvangi Alþingis. Persónulega þakka ég honum góð kynni og skemmtileg skoðanaskipti í pólitík, einkum meðan við vorum í Menntaskólanum á Akureyri.

Ég veit að ég tala fyrir munn allra alþingismanna þegar ég þakka honum ánægjuleg kynni og gott samstarf. Hann hverfur nú til nýrra starfa og við óskum honum allra heilla á þeim vettvangi.

Við þingsæti Sighvats Björgvinssonar tekur séra Karl V. Matthíasson sóknarprestur og verður 2. þm. Vestf. Hann hefur tekið sæti sem varamaður á þessu kjörtímabili og undirritað drengskaparheit. Ég býð hann velkominn til starfa.