Breytingar á starfsemi Rariks

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 15:29:11 (4415)

2001-02-12 15:29:11# 126. lþ. 67.1 fundur 280#B breytingar á starfsemi Rariks# (óundirbúin fsp.), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[15:29]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það hefur legið fyrir að stjórnvöld stefna að endurskipulagningu á raforkusölu og dreifingu í landinu. Ráðherra hefur lýst því yfir að stefnan ætti að birtast hér í lagafrv. á þessu vori og einnig að til greina kæmi að flytja Rarik til Akureyrar. Menn hafa einnig talað um að eignarhaldi á Rarik yrði breytt og Akureyringar færðu jafnvel eignarhlut sinn úr Landsvirkjun þangað.

[15:30]

Nú berast fréttir af því að miklar skipulagsbreytingar séu í gangi hjá Rarik, tilflutningur starfsmanna og verið sé að leggja niður störf og fækka þeim á landsbyggðinni. Með leyfi forseta vil ég vitna í bókun sveitarstjórnar Búðahrepps um þetta málefni. Þar stendur að sveitarstjórnin furði sig á þeirri byggðastefnu sem ríkisstjórnin virðist líða í þessum breytingum hjá Rarik. Þjónustan við íbúa svæðisins skuli skert, óöryggi byggðarinnar aukið og störfum fækkað. Rafmagnsveitustjóri brást hart við, bar þetta til baka og harmaði þann djúpstæða misskilning sem hefði gætt í þessari bókun. Ég hef hins vegar af því fréttir víðar að en þarna frá að þessar skipulagsbreytingar séu á fullri ferð. Allt virðist vera komið af stað þó að ekki hafi komið fram neitt frv. og engin stefnumörkun frá hæstv. ríkisstjórn. Ekki hefur farið fram nein umræða í sölum Alþingis um þetta mál en samt sem áður er verið að ganga í það að fækka störfum á landsbyggðinni. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna hann lætur þessar skipulagsbreytingar hefjast áður en umræðan hefur farið fram og hvort rétt sé að niðurstaðan verði sú að bæði sé verið að flytja störf til Reykjavíkur eins og nú háttar til og fækka störfum á landsbyggðinni án þess að ríkisstjórnin sjái til þess að önnur störf komi í staðinn. Ég held að margir hafi áhuga á því að frétta hvernig byggðastefna ríkisstjórnarinnar fer saman við þetta.