Breytingar á starfsemi Rariks

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 15:31:26 (4416)

2001-02-12 15:31:26# 126. lþ. 67.1 fundur 280#B breytingar á starfsemi Rariks# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[15:31]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hv. þm. að miklar breytingar eru fyrirhugaðar á raforkukerfinu og nýtt frv. til raforkulaga mun líta dagsins ljós alveg á næstunni. Það er á lokastigi í vinnslu í ráðuneytinu. Þessar breytingar eru mjög miklar og mjög afgerandi á mörgum sviðum og þær eru fyrst og fremst til komnar vegna tilskipunar Evrópusambandsins. Engu að síður er það rétt sem hv. þm. segir að Rarik hefur nú þegar farið út í skipulagsbreytingar sem kemur til af því að Rarik veit hver tilskipunin er og veit hvað fram undan er. Þess vegna tel ég að skynsamlegt sé af fyrirtækinu að hefja nú þegar vinnu við þessar skipulagsbreytingar.

Það er hins vegar ekki rétt sem kemur fram hjá hv. þm. að verið sé að fækka störfum á landsbyggðinni. Það er verið að breyta starfsheitum í einhverjum tilfellum en það er ekki rétt að verið sé að færa störf af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Ég hef orðið vör við þó nokkuð mikinn draugagang, ef þannig má að orði komast, í þessu máli og víða er mikill órói hjá starfsmönnum þessa fyrirtækis sem mér þykir miður en ég tel að þegar frv. lítur dagsins ljós og málefnalegar umræður hefjast á hv. Alþingi um þær breytingar sem fram undan eru verði hægt að skýra þetta mál. Hvað varðar flutning fyrirtækisins eða höfuðstöðvar til Akureyrar hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um það en það kom fram í fréttum fyrir helgi, sem var ekki frá mér komið, að ríkisstjórnin er að fjalla um það mál.