Breytingar á starfsemi Rariks

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 15:35:50 (4419)

2001-02-12 15:35:50# 126. lþ. 67.1 fundur 280#B breytingar á starfsemi Rariks# (óundirbúin fsp.), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[15:35]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það getur vel verið að það verði fjörugar umræður. Ég býst við því. Ég er ekki að halda því fram að Rarik sé að brjóta ein eða nein lög. Rarik er einfaldlega að gera skipulagsbreytingar. Þær eru á ferðinni áður en umræðan hefur farið fram.

Ég spyr hæstv. ráðherra að því líka vegna þess að það vill svo til að hún er líka ráðherra byggðamála, hvort það sé stefna ríkisstjórnarinnar sem speglast í þessum ráðstöfunum, að verið sé að skipuleggja upp á nýtt, t.d. í sambandi við póstinn í landinu, verið að breyta, leggja niður störf og gera skipulagsbreytingar, eins og hjá Rarik, án þess að ríkisstjórnin ætli að sjá til þess að önnur störf komi í staðinn fyrir þau sem eru lögð niður. Er það byggðastefna ríkisstjórnarinnar? Ég hef ekki á móti skipulagsbreytingum til hagræðingar en það hlýtur að verða að gera þá kröfu að hæstv. ríkisstjórn standi við stóru orðin um byggðastefnuna og sjái til þess að þegar störfum á landsbyggðinni fækkar vegna slíkra hluta, komi ný störf í staðinn.