Lokun pósthúsa á landsbyggðinni

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 15:40:39 (4422)

2001-02-12 15:40:39# 126. lþ. 67.1 fundur 281#B lokun pósthúsa á landsbyggðinni# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[15:40]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það vill þannig til að það er stjórn yfir Íslandspósti hf. Í þeirri stjórn eru fulltrúar flestra ef ekki allra stjórnmálaflokka, sennilega ekki allra reyndar, sem eru í þinginu þannig að tiltölulega greiður aðgangur er að upplýsingum frá stjórn Íslandspósts hf. þegar verið er að fjalla um svo viðamiklar breytingar sem hv. þm. gat um.

Á hitt ber að líta að þær aðgerðir sem Íslandspóstur stendur fyrir og snúa að hagræðingu úti um allt land bæði á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar og eru vegna mikilla breytinga í þjónustu póstsins, snúa allar að því að styrkja póstþjónustuna, koma í veg fyrir að hún leggist af. Meðal annars þess vegna flutti hæstv. iðnrh. og viðskrh. frv. sem gaf færi á því að bankastofnanir og sparisjóðir gætu tekið að sér þessa þjónustu þannig að þar sem svo háttar til og mikill samdráttur hefur orðið m.a. í íbúafjölda og mikill samdráttur í póstþjónustunni eftir að sjálfvirki síminn varð að veruleika, svo að sérstök athygli sé vakin á því vegna þess að símaþjónustan og póstþjónustan fóru áður saman, þá hefur verið staðið þannig að málum að reynt hefur verið að slengja þessari þjónustu saman. Af þessum skipulagsbreytingum verður sparnaður að sjálfsögðu, og umfram allt er reynt að sjá svo til að þjónustan sé ekki síðri en verið hefur.

Við verðum auðvitað að líta til stöðu mála, þrátt fyrir það að við þurfum að halda öllum störfum sem við getum og helst fjölga þeim úti um allt land, m.a. hvað varðar rekstur pósthúsanna í landinu. En ég mótmæli því algerlega að hér sé óeðlilega að staðið og vænti þess að þingmaðurinn fái upplýsingar um það.