Útboð á kennslu grunnskólabarna

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 15:53:24 (4428)

2001-02-12 15:53:24# 126. lþ. 67.91 fundur 285#B útboð á kennslu grunnskólabarna# (umræður utan dagskrár), Flm. GÁS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[15:53]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Í 1. gr. laga um grunnskóla segir svo, með leyfi forseta:

,,Sveitarfélögum er skylt að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6 til 16 ára eftir því sem nánar segir í lögum þessum. Skóli þessi nefnist grunnskóli.``

Í 1. gr. er einnig kveðið á um skyldu þessa aldurshóps til að sækja skóla. Það er því grundvallaratriði íslenskrar menntastefnu að það sé bæði skylda sveitarfélaga að reka og kosta grunnskóla og um leið réttur og skylda barna í viðkomandi sveitarfélagi að sækja grunnskólann og eiga þar kost á víðtækri grunnmenntun. Um þessa grundvallarsamfélagsþjónustu hefur verið góð sátt í íslensku samfélagi og einnig á hinum pólitíska vettvangi. Jafnrétti til náms á grunnskólastigi hefur einfaldlega verið óumdeilt.

Nú hafa hins vegar borist af því fréttir að meiri hluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hyggist rjúfa þessa sátt og hefur leitað atbeina menntmrh. til að koma fram þeim áformum sínum að bjóða út kennsluþáttinn í nýjum skóla sem er í byggingu og áformað er að taki til starfa á hausti komanda. Minni hluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, fimm bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar, hafa mótmælt þessum áformum harðlega en meiri hlutinn, sex bæjarfulltrúar Sjálfstfl. og Framsfl. hafa knúið málið í gegn og samþykkt að fram fari útboð á börnum og jafnframt óskað eftir undanþágu samkvæmt 53. gr. grunnskólalaga þar sem kveðið er á um tilraunaverkefni innan skólans.

Herra forseti. Ég vil taka það skýrt fram að mitt álit og fleiri, þar á meðal Kennarasambands Íslands, er að engan veginn sé hægt að heimfæra útboð á börnum og kennsluþættinum í starfi hefðbundins hverfisskóla undir þessa tilteknu grein grunnskólalaganna. Það er raunar önnur saga, en rétt er að geta þess að núverandi bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa farið svokallaða einkafjármögnunarleið varðandi byggingu þessa skóla og raunar fleiri sem í undirbúningi eru. Það þýðir í mæltu máli að sveitarfélagið er leigjandi skólahúsnæðisins í næstu 25 ár og þarf að þeim tíma liðnum að semja um áframhaldandi afnot. Lætur nærri að skuldbindingar bæjarfélagsins vegna allra slíkra fjárfestinga, ef af verða, verði nærri 7 milljörðum kr. í lok kjörtímabils núverandi sveitarstjórnar. Það er ógnvekjandi tala.

En nú á að ganga skrefinu lengra. Nú á að markaðsvæða sjálfa kennsluna. Það er rétt að undirstrika það klárlega að væntanlegir nemendur í þessum skóla, Áslandsskóla, munu ekki hafa neitt val. Þetta verður þeirra hverfisskóli. Hér er því ekki um hefðbundinn einkaskóla að ræða þar sem nemendur þurfa að greiða sérstök skólagjöld kjósi þeir af einhverjum ástæðum að nema í öðrum skólum en boðið er upp á í sveitarfélaginu.

Herra forseti. Ég ætla að tala hér tæpitungulaust. Þessi áform á að stöðva í fæðingu. Það á ekki að heimila útboð á börnum. Með þessu er markaðshyggjan færð yfir á ný og áður óþekkt svið. Hvað kostar eitt barn, ljóshærður drengur, átta ára gamall, meðalgreindur með engin sérstök hegðunarvandamál en hefur þó átt í erfiðleikum í stærðfræði? Tilboð óskast. Nei, herra forseti. Svona gera menn ekki. Ég geng út frá því að hæstv. menntmrh. stöðvi þetta. Ef hann gerir það ekki þá hefur hann hrundið af stað styrjöld sem ekki verður séð fyrir endann á. Hann getur þó a.m.k. gengið út frá því sem vísu að við jafnaðarmenn munum berjast gegn þessari frjálshyggju af fullri hörku. Kennarar og skólamenn í þessu landi og stór hluti almennings trúi ég að muni einnig ekki taka þessu með þegjandi þögninni. Og við spyrjum að leikslokum.

Hér er að sönnu ekki um að ræða einkamál meiri hluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar heldur í raun og sanni framtíð grunnskólans hér á landi, hvorki meira né minna. Í því framhaldi spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Áformar menntmrh. að verða við beiðni bæjaryfirvalda í Hafnarfirði um að bjóða út kennslu til handa grunnskólanemendum í nýjum skóla í Hafnarfirði?

2. Standast áform Hafnarfjarðarbæjar um útboð og kennsluþætti í nýjum skóla grunnskólalög að mati menntmrh. eða mun ráðherra leggja fram frv. til breytingar á lögunum ef hann hyggst koma til móts við ætlan ráðamanna í Hafnarfirði?

3. Hafa bæjaryfirvöld í Hafnarfirði fengið fyrirheit um jákvæða afstöðu menntmrn. á undirbúningsstigi málsins?

4. Telur menntmrh. að útboð á börnum styrki skólastarf á grunnskólastigi og jafnræði til náms sem er hinn rauði þráður þessarar grundvallarsamfélagsþjónustu hér á landi?

Skýr svör óskast.