Útboð á kennslu grunnskólabarna

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 16:11:52 (4435)

2001-02-12 16:11:52# 126. lþ. 67.91 fundur 285#B útboð á kennslu grunnskólabarna# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[16:11]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Vegna orða síðasta ræðumanns, hv. formanns menntmn. Alþingis, um að hér sé á ferðinni tækifæri til spennandi nýjungar í skólastafi og til öflugs þróunarstarfs, þá fullyrði ég að spennandi nýjungar og öflugt þróunarstarf í skólastarfi rúmast fyllilega innan þess kerfis sem við höfum búið við í skólamálum til þessa.

Herra forseti. Börn í hverfisskóla suður í Hafnarfirði sem eiga lagalegan rétt til náms samkvæmt grunnskólalögum eiga nú á hættu að verða tilraunadýr og ég leyfi mér að fullyrða, herra forseti, fórnarlömb einkavæðingaræðis Sjálfstfl. og Framsfl. Og það er alveg sama hvað talsmaður Framsfl. við þessa umæðu, hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, segir um þetta mál, Framsfl. er fastur í þessu neti. Hann er fastur í neti einkavæðingaræðisins hér í þingsölum í samstarfi sínu við Sjálfstfl. og hann er fastur í einkavæðingaræðinu greinilega víðar. Hann er fastur í því suður í Hafnarfirði.

Félagsdeild Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í Hafnarfirði hefur mótmælt kröftuglega þessum áformum og hefur harmað það að bæjarstjórn Hafnarfjarðar skuli nú bjóða út í þessu almenna útboði kennslu í grunnskóla í hverfisskóla sem er að rísa í Áslandi í Hafnarfirði. Hér er um að ræða kennslu barna á skólaskyldualdri, kennslu sem á að bjóða lægstbjóðanda á markaðstorgi, alveg eins og um hefðbundna neysluvöru sé að ræða. Málið snýst um kerfisbreytingu í menntun barna á skólaskyldualdri í Hafnarfirði. Um þessi áform hefur alls ekki farið fram nein fagleg umræða eða kynning fyrir bæjarbúum. Þegar svona er staðið að málum í jafnmikilvægum málaflokki sem menntamálum fyrir börn á grunnskólaaldri, þá eru vinnubrögð af þessu tagi forkastanleg.