Útboð á kennslu grunnskólabarna

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 16:20:29 (4439)

2001-02-12 16:20:29# 126. lþ. 67.91 fundur 285#B útboð á kennslu grunnskólabarna# (umræður utan dagskrár), Flm. GÁS
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[16:20]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Þessi umræða hefur leitt margt fróðlegt í ljós. Augljóst er hér á hinu háa Alþingi að Sjálfstfl. er einn á ferð. Hann er kominn út úr skápnum með grímulausa aðdáun sína á því að markaðurinn leysi öll vandamál. Á hinn bóginn er ljóst af tóntegund þeirra framsóknarmanna sem hér hafa talað að þeir eru ekki í för með sjálfstæðismönnum í þessum efnum. Ég vænti því að þessi mál verði tekin upp á vettvangi ríkisstjórnarinnar og þingflokka stjórnarflokkanna og að Framsfl. setji hæstv. menntmrh. stólinn fyrir dyrnar. En það var alveg augljóst á svörum hans að hann ætlar að verða við þessari beiðni og meira að segja að túlka gildandi lög á þann veg að ekki þurfi að breyta þeim, og allt í nafni einhverrar tilraunar. Herra forseti verður að afsaka það en þannig er það nú bara að hér er á ferðinni uppboð og útboð á börnum. Það er þetta sem það heitir og ég er vanur því hér á hinu háa Alþingi sem og annars staðar að kalla hlutina sínum réttu nöfnum.

Við erum að ræða það að fram fari útboð á þessari grundvallarþjónustu við börn í landinu. Við skulum hugsa okkur það, herra forseti, hvernig útboð af þessum toga ganga fyrir sig og það er alkunna og það þekki ég vel sem fyrrum sveitarstjórnarmaður að menn leita frávikstilboða. Það má vænta þess að þau verði nokkur frávikstilboðin sem komi í rekstur og kennslu þessa skóla þegar um er að ræða óhefðbundna nemendur sem að einhverju leyti eru kannski ekki í takt við það sem gerist og gengur. Er það spennandi framtíðarsýn, herra forseti? Ónei. Það er ekki spennandi framtíðarsýn að bjóða upp börn á Íslandi, hefur aldrei verið það og verður það ekki.