Útboð á kennslu grunnskólabarna

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 16:22:56 (4441)

2001-02-12 16:22:56# 126. lþ. 67.91 fundur 285#B útboð á kennslu grunnskólabarna# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[16:22]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka þessar umræður. Ég minni á að bæjarfulltrúar Sjálfstfl. og Framsfl. standa að meiri hluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Ég vil líka taka fram að ég skýrði frá því í ríkisstjórninni hvernig ég mundi svara þessum spurningum og lýsti því yfir hvaða afstöðu ég hefði í málinu og hún hefur komið skýrt fram og hefur ekki breyst við þessar umræður. Þvert á móti finnst mér ekki hafa komið nein rök gegn því að þessi tilraun verði heimiluð. Ef menn lesa og kynna sér tilurð ákvæðisins í lögunum sem um er að ræða sjá þeir að ógerningur er að túlka ákvæðið um tilraunastarfið í skólunum á þann veg að ekki sé heimilt að heimila slíka tilraun.

Varðandi það sem menn sögðu þegar grunnskólinn var fluttur frá ríkinu til sveitarfélaga, þá sótti ég fjölmarga fundi og lá aldrei á þeirri skoðun minni sem ég lýsti í svari mínu áðan að ég teldi að þetta væri fyrsta skrefið til að færa skólana enn nær foreldrunum og taka upp nýja starfshætti við stjórn skólanna eins og verið er að gera með því útboði sem Hafnfirðingar ætla að fara af stað með. Þegar menn líta á rammann sem settur er í útboðinu verða þeir að líta til þess að gerðar eru mjög ríkar kröfur varðandi faglega þætti skólastarfsins, hugmyndafræðina sem á að vera innan skólans og líka til þeirra þarfa sem á að fullnægja hjá börnunum innan skólans og ekki er slegið af neinu. Ég fullyrði það líka að fylgst verður frekar með því þarna en í öðrum skólum hvernig að öllum þessum þáttum er staðið og menntmrn. hefur þau tæki sem duga til að sjá um að það verði ekki gengið á hlut barna. Ég ítreka svo andstöðu mína við hin ósmekklegu ummæli hv. fyrirspyrjanda.