Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 16:42:28 (4446)

2001-02-12 16:42:28# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[16:42]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir þá hugarfró sem hann veitir mér með því að rifja upp að Landssími Íslands ætli að ISDN-væða landið allt innan þeirra tímamarka sem hv. þm. nefndi. Það breytir þó ekki því að í greinargerð útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins með þessu frv. kemur fram að búnaður fyrir þjónustuna sem hér um ræðir, þ.e. að gera fólki kleift að taka á móti sjónvarpsútsendingum í gegnum ISDN-kerfið, er á þróunarstigi. Það kemur sömuleiðis fram í greinargerðinni að það sé óvíst í hversu miklum mæli hann muni henta á þeim sveitabæjum sem hér um ræðir. Hér er hins vegar látið að því liggja að menn treysti á tæknina því þróunin í þessum tæknimálum sé ör. Það virðist því alveg ljóst á orðum útvarpsstjóra að það sé alls ekki búið að tryggja, þó ISDN-væðing landsins verði að veruleika innan einhvers tímafrests, að hægt verði að nota þá tækni sem ISDN-væðingin býður upp á til að taka á móti sjónvarpsútsendingum.