Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 17:07:51 (4455)

2001-02-12 17:07:51# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[17:07]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að efast um að við séum að gera réttan hlut með því að taka þetta frv. til afgreiðslu og, ef það yrði samþykkt, fella niður 11. gr. laganna.

Í greinargerðinni segir m.a. að 99% þjóðarinnar nái útsendingum stöðvarinnar, þ.e. Rásar 2, Rásar 1 og sjónvarpsins. Síðan segir í greinargerð útvarpsstjóra um hlutverk framkvæmdasjóðsins að markmiðum Framkvæmdasjóðs Ríkisútvarpsins hafi verið náð. Ég get ómögulega fallist á þessi viðhorf. Mér finnst þau hins vegar lýsa því að menn sem sitja hér í miðri Reykjavík telja að ef tekst að koma starfsemi Ríkisútvarpsins á einn stað í Efstaleiti þá sé markmiðunum náð.

Mig langar m.a. að víkja aðeins að því að fyrir mörgum árum var því lofað úr þessum ræðustól að sjónvarpssendingar til fiskimiðanna skyldu gerðar mögulegar. Þetta var í sambandi við staðsetningu ratsjárstöðva annars vegar á Gunnólfsvíkurfjalli og hins vegar á Bolafjalli. Þessi orð viðhafði þá, ef ég man rétt, Geir Hallgrímsson. Það var m.a. bent á það að með staðsetningu þessara stöðva ætti að vera auðvelt að sjónvarpa til fiskimiðanna, á þau svæði sem þessi umræddu fjöll snúa sérstaklega vel að, þ.e. annars vegar Vestfjarðamiðin að stórum hluta, reyndar þó nokkuð austur á Strandagrunn og hins vegar norðausturmiðin. Ég hef alltaf litið svo á varðandi þau loforð sem voru gefin í sambandi við þetta og voru m.a. flutt hér og er vafalaust hægt að fletta þeim orðum upp, að sjómenn á fiskimiðum landsins teldust líka notendur Ríkisútvarpsins og þar með talið sjónvarpsefnis, og að það yrði framkvæmt þannig varðandi dreifikerfið að þeim markmiðum þyrfti líka að ná. Ég hef alltaf tekið það þannig að þetta væri hlutur sem menn ætluðu að standa við og framkvæma. Mér finnst að markmiðum í sambandi við uppbyggingu útvarpsins sé alls ekki náð með því að koma starfseminni fyrir á einum stað í Reykjavík. Mér finnst að markmiðunum sé þá fyrst náð þegar búið er að tryggja að þær sendingar sem allir landsmenn taka þátt í að kosta geti borist til allra og að það sé það hlutverk sem eigi að tryggja.

Þess vegna verð ég að lýsa þeirri skoðun minni að ég er lítt hrifinn af því að þetta frv. nái fram að ganga óbreytt. Ég hefði m.a. viljað fá mjög skýrar yfirlýsingar um að við loforðin um sjónvarpssendingar á fiskimiðin væri staðið. Þar að auki hafa um 40 bæir mjög skert eða lítil móttökuskilyrði. Ég tel að allir landsmenn eigi að vera jafnir með tilliti til þess að geta notið þjónustu Ríkisútvarpins.

Ljóst er að íslenskir útgerðarmenn m.a. hafa verið að greiða gjöld til Ríkisútvarpsins á undanförnum árum, bæði fyrir útvarp og sjónvarp þó að notkun sjónvarpsins um borð í fiskiskipum sé mjög takmörkuð. Ég vil inna hæstv. menntmrh. eftir því hvort hann minnist þess að slík loforð hafi verið gefin úr þessum ræðustól á Alþingi fyrir mörgum árum að einnig skyldi tryggja dreifikerfi til fiskimiðanna umhverfis landið varðandi sjónvarpssendingar. Ég tel víst að ég geti fundið þessar ræður og þær yfirlýsingar sem þá voru gefnar, en þær voru gefnar í tengslum við umræður um ratsjárstöðvar á Bolafjalli og Gunnólfsvíkurfjalli eins og ég gat um áður.

Ég vil sem sagt ítreka það að ég tel að markmiðum Framkvæmdasjóðs Ríkisútvarpsins hafi ekki verið náð.