Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 17:21:49 (4457)

2001-02-12 17:21:49# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[17:21]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þetta var dæmalaus ræða sem við heyrðum hér síðast. Alveg ótrúlega einkennileg ræða, sérstaklega með hliðsjón af því að hv. ræðumaður er flutningsmaður að þáltill. um útvarps- og sjónvarpssendingar á öll heimili á Íslandi. Í greinargerð þeirrar tillögu er tekið upp orðrétt það sem stendur í greinargerð með því frv. sem við erum að ræða um hvaða aðferðum á að beita til að ná því markmiði sem hv. þm. sagði að þyrfti að ná, þ.e. að beita ISDN-tækninni og að taka eigi mið af því að hún á að vera tiltæk á öllum bæjum landsins árið 2002. Og svo kemur hv. þm. hér upp eins og hann sé að tala um einhverja hluti sem menn hafi ekki velt fyrir sér og er sjálfur flutningsmaður að tillögu þar sem þetta er tekið fram í greinargerð sem aðallausn á málinu. Ég botna ekkert í svona málflutningi, herra forseti, og sýnir hann hvað umræður geta farið um víðan völl og hvað menn eru hólfskiptir þegar þeir standa hér í þessum ræðustól. Annars vegar eru þeir flutningsmenn að tillögum hér í þinginu þar sem talað er um ákveðna lausn í því máli sem þingmaðurinn gagnrýnir aðallega að ekki sé tekið á, en þó er það tekið upp úr greinargerðinni með þessu frv. og sett inn í tillögu sem þingmaðurinn flytur. Ég held að þingmenn verði nú að vanda málflutning sinn til að eitthvert mark sé tekið á þeim. Tal af þessu tagi er ekki til þess fallið að leiða neitt til lykta fyrir það fólk sem enn hefur ekki notið sjónvarpsins og þarf að fá úrlausn eins og aðrir. Og svona tal eins og hér var uppi hjá hv. þm. er síst til þess fallið að nokkur lausn finnist á þessu máli og hann er ekki með hugmyndum sínum raunar að leita að slíkum lausnum, heldur er hann eins og endranær að gera ríkisstjórnina tortryggilega á fölskum forsendum og ráðast að okkur ráðherrunum fyrir það sem hefur ekki við nokkur rök að styðjast þegar það er skoðað og liggur fyrir hér í tveimur þingskjölum, sem þingmaðurinn hefði nú átt að lesa þar sem hann er flutningsmaður að öðru skjalinu og tekur upp úr hinu sem hann telur að vanti alla niðurstöðu í. Herra forseti, ég bið því um að þingmenn vandi málflutning sinn og komi fram og leggi fram mál þannig að það sé marktækt þegar þeir eru að ræða mál hér í þinginu.

Það er náttúrlega undarlegt að komast að þeirri niðurstöðu að öllum framkvæmdum á vegum Ríkisútvarpsins verði hætt þótt 11. gr. laganna verði felld brott og menn dragi þær ályktanir að þar með verði bara öllum framkvæmdum á vegum Ríkisútvarpsins lokið. Ég skil ekki hvernig menn halda að sú stofnun ætli að þjóna hlustendum sínum og áhorfendum ef hún ætlar að leggja niður allar framkvæmdir. Það sem hér er um að ræða er það, eins og fram hefur komið hjá þeim þingmönnum sem hafa þó lagt efnislegt mat á þetta mál, að taka upp nútímalega hætti varðandi þennan þátt í rekstri Ríkisútvarpsins eins og okkur tekst vonandi að gera á fleiri sviðum, en ekki er verið að leggja til að öllum framkvæmdum á vegum Ríkisútvarpsins verði hætt.

Og að þingmenn komi hér síðan upp og tali eins og hv. síðasti ræðumaður um þetta mál sýnir náttúrlega að þeim er nokk sama um staðreyndir mála. Það er bara verið að reyna að koma höggi á ríkisstjórnina og einstaka ráðherra, sama hvaða mál er tekið fyrir á hinu háa Alþingi, þá koma alltaf sömu mennirnir upp og telja að tillögunum sé sérstaklega beint gegn fólki úti á landsbyggðinni. Ég bið menn að gæta sín og þeir verða þá að rökstyðja mál sitt betur en hv. síðasti ræðumaður gerði til að þeir séu marktækir. Það er kannski helsti vandi fólks á landsbyggðinni að hafa slíka málflytjendur og málsvara eins og síðasti ræðumaður var ef fólk telur sér trú um að þeir eigi frekar erindi sem málsvarar þess heldur en við hinir sem komum hér og ræðum málin á efnislegum forsendum.

Herra forseti. Ég var spurður um hvenær frv. til laga um Ríkisútvarpið kæmi fram. Eins og ég hef margoft sagt þegar þessi mál hafa verið á dagskránni samþykktum við á síðasta vori frv. til útvarpslaga sem var nauðsynleg forsenda þess að sá almenni rammi yrði markaður um útvarpsstarfsemi í landinu sem við þurfum að hafa hliðsjón af þegar lög um Ríkisútvarpið yrðu endurskoðuð. Ég hef einnig lýst þeirri skoðun minni að ég tel að breyta eigi Ríkisútvarpinu í hlutafélag í eigu ríkisins. Ég skildi ekki hjá hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni, 6. þm. Norðurl. e., hvernig unnt er að tala eins og hann gerði, að fyrirtæki hafi verið einkavædd en eru ekki komin úr eigu ríkisins. Hvaða fyrirtæki eru það sem hafa verið einkavædd en eru samt í eigu ríkisins? Ég skil ekki hvað sú setning þýðir, því að einkavæðing felur það í sér að fyrirtæki fara úr eigu ríkisins. Það hefur ekki verið talað um einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Talað hefur verið um að breyta því í hlutafélag, breyta rekstrarforminu og gera því kleift að starfa á þeim forsendum og takast á við verkefni sín á þeim forsendum eins og menn hafa verið að gera annars staðar á Norðurlöndunum. Það eru eindregin tilmæli allra stjórnenda Ríkisútvarpsins að fyrirkomulaginu á skipulagi útvarpsins verði breytt með þessum hætti. Ég hef lýst því yfir að ég er talsmaður þess að sú leið verði farin og tel að hún sé fær og það sé líka fært að fara þá leið, um leið og því markmiði er náð að fella niður afnotagjöldin, að gera Ríkisútvarpið að fjárlagalið eins og þær ríkisstofnanir sem fá ríkistekjur sínar beint af fjárlögum.

Hvenær frv. verður flutt ætla ég ekki að fullyrða, þetta er viðamikið mál. En ég taldi nauðsynlegt að bregðast fljótt við þessum óskum frá Ríkisútvarpinu um niðurfellingu 11. gr. laganna um framkvæmdasjóðinn og tel að það sé brýnt mál til þess að Ríkisútvarpið njóti sín sem best við meðferð fjármuna sinna og það sé algjör tímaskekkja að binda þannig tekjur þeirrar stofnunar frekar en annarra með sambærilegum hætti. Halda menn að engar framkvæmdir væru t.d. á vegum Alþingis nema starfræktur væri sérstakur framkvæmdasjóður Alþingis? Við vitum að þessi hugtök eru börn síns tíma og segja ekkert fyrir um það að menn ætli að leggja af allar framkvæmdir. Að draga þá ályktun er náttúrlega algjörlega út í hött og er til þess fallið eins og ég hef sagt að halda fram einhverjum áróðri sem á ekki við nokkur rök að styðjast.

Ég man ekki eftir, herra forseti, að lofað hafi verið þegar ratsjárstöðvarnar komu til sögunnar um miðjan níunda áratuginn að þær mundu hafa í för með sér sjónvarpssendingar til skipa á þeim svæðum sem stöðvarnar ná til, þannig að ég get ekki svarað neinu um það efni. Ég man hins vegar að umræður voru um það á sínum tíma þegar verið var að skoða þá tækni sem menn töldu að væri fyrir hendi þegar ratsjárstöðvarnar voru til umræðu, að unnt væri að fylgjast með skipum úr þeim stöðvum. En eins og hv. 4. þm. Vestf., Guðjón A. Kristjánsson, veit var tæknin ekki með þeim hætti að unnt yrði að fylgjast með skipum á hafinu úr slíkum stöðvum. Þær eru aðeins til þess fallnar að fylgjast með flugvélum, í lágflugi þó, en ekki því sem er á hafinu sjálfu. Það kann m.a. að skýra að ekki er hægt að nota búnað í stöðvunum til að senda sjónvarpsgeisla til skipa á hafi úti, ef það hefur verið ætlunin á einhverju stigi málsins.

En hins vegar kemur fram, herra forseti, í þeirri skýrslu sem samgrh. hefur lagt fram varðandi einkavæðingu á Landssímanum að þær framkvæmdir sem unnar voru í tengslum við gerð ratsjárstöðvanna á sínum tíma með því að leggja ljósleiðara umhverfis landið duga nú hvað best þegar menn líta til þeirrar endurnýjunar sem er fyrir dyrum varðandi alla sendingu á bæði útvarps- og sjónvarpsefni og öðru efni með stafrænum hætti. Þessar framkvæmdir, lagning ljósleiðarans, skipta sköpum þegar við lítum til þessara þátta núna.

Ég hef sjálfur talið að það ætti að vera markmið þeirra sem starfrækja hér sjónvarp að nýta sér gervitungl og það ætti að vera íslenskur geisli í gervitungli, þannig að menn gætu með þeim móttökutækjum sem best eru tekið á móti geislum úr gervitunglum, og þá ættu menn að geta notað og náð til íslenskra sjónvarpssendinga. Ég held að það sé raunhæfasta leiðin þegar við ræðum um hvernig best er að miðla sjónvarpi til skipa á hafi úti, nema til sögunnar komi önnur tækni. Og þrátt fyrir að ratsjárstöðvarnar á sínum tíma urðu ekki eins fullkomnar og menn ætluðu, þá hefur fjarskiptatæknin tekið svo stórstígum framförum á undanförnum árum og raunar undanförnum missirum, að sífellt auðveldara verður að miðla sjónvarps- og útvarpsdagskrá.

Ekki má draga þá ályktun af frv. að Ríkisútvarpið eða aðrir sem hafa atvinnu af því að nýta sér þessa tækni muni leggja hendur í skaut þó að framkvæmdasjóðurinn verði lagður niður og 11. gr. laganna um Ríkisútvarpið hverfi úr sögunni. Það þýðir ekki að öllum framkvæmdum í þágu Ríkisútvarpsins verði hætt, það er óskaplega mikill barnaskapur að draga þá ályktun af frv.