Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 17:37:00 (4462)

2001-02-12 17:37:00# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[17:37]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þeirra orða hæstv. menntmrh. að ég vissi ekki muninn á hlutafélagavæðingu og einkavæðingu þá höfum við nú reynsluna af því að það er náttúrlega miðað við verkreglur og vinnulag Sjálfstfl. alveg eins gott að hlaupa yfir hlutafjárvæðingarþáttinn og skella sér beint í einkavæðinguna, vegna þess að í flestum málum er hlutafélagavæðingin notuð sem verkfæri til þess að koma starfsemi ríkisins í einkahendur. Ég sé því ekki að efnislega skipti þetta máli í málflutningi mínum.

Við erum talsmenn fyrir ríkisútvarp. Við viljum hafa ríkisútvarp og um það snýst ágreiningurinn. Það er ekkert óeðlilegt að við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði tölum fyrir áframhaldandi rekstri Ríkisútvarpsins á myndarlegan hátt. Við viljum stuðla að því. Hins vegar er það þannig og ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki sé í hans röðum, meðal hans stuðningsmanna og flokksmanna, mjög mikill áróður fyrir því, eins og hefur komið fram í flokkssamþykktum og blöðum, að beita þeim aðferðum að hlutafélagavæða og síðan einkavæða Ríkisútvarpið? Ég hélt að það væri ekki launungarmál. Með málflutningi okkar viljum við standa gegn því. Við viljum myndarlegt ríkisútvarp og um það snýst málið.