Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 17:38:30 (4463)

2001-02-12 17:38:30# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[17:38]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég gerði athugasemd við í máli hv. þm. var þegar hann sagði í umræðunum að ríkisstofnanir hefðu verið einkavæddar en væru ekki komnar úr eigu ríkisins. Ég vakti athygli á því að þarna væri hv. þm. að nota hugtök með þeim hætti að stæðist ekki.

Varðandi samþykktir Sjálfstfl. um Ríkisútvarpið þá hefur Sjálfstfl. á landsfundum sínum aldrei samþykkt að selja beri Ríkisútvarpið. Það hafa verið umræður um afnotagjöldin og þá skyldu fólks að greiða afnotagjöld án tillits til þess hvort það horfði nokkurn tímann á viðkomandi stöð eða hlustaði nokkurn tímann á viðkomandi útvarpsstöð. Þessu vil ég breyta. Og ég heyri það hér í umræðunum að fleiri þingmenn eru sama sinnis og ég um að afnema afnotagjöldin. Ég hef líka orðið var við það hér í umræðum á Alþingi á undanförnum missirum þegar þessi mál hefur borið á góma, að æ fleiri þingmenn úr öllum flokkum aðhyllast þá skoðun mína að skynsamlegast sé að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag í eigu ríkisins. Þeim mun meira sem við ræðum málið, þeim mun fleiri munu verða sama sinnis og ég um þetta til þess að Ríkisútvarpið fái að þróast við viðunandi aðstæður. Ég er viss um það að áður en þessu kjörtímabili lýkur verðum við búin að samþykkja það hér á hinu háa Alþingi og vonandi slást vinstri grænir í þá för með okkur.