Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 18:03:09 (4472)

2001-02-12 18:03:09# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[18:03]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það eru tvær spurningar sem mig langar að beina til hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar. Hann talar um grámyglu fortíðarinnar sem er útvarpsráð. Nú má deila um hvernig eigi að skipa útvarpsráð, hvort stjórnmálaflokkarnir eigi að skipa útvarpsráð eða Alþingi Íslendinga. Eins og búið er um hnútana núna er það Alþingi Íslendinga sem skipar útvarpsráð. Deila má um hvort aðrir aðilar eigi að koma þar að verki. Mér þætti fróðlegt að vita hvaða aðila hv. þm. er þá með í huga. Hin leiðin sem farin yrði ef stofnunin yrði gerð að hlutafélagi væri þá að handhafi hlutabréfs eða hlutabréfa skipaði stjórn fyrirtækisins. Væntanlega á það að lúta einhverri stjórn. Á hlutabréfamarkaði ráða þeir sem eiga hlutabréfin, fjármagnið, yfir fyrirtækjunum. Hvaða hugmyndir hefur hv. þm. um það?

Það er rétt að starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa eins og í öðrum stofnunum oft eitthvað við stjórnendur og stjórnina að athuga. Ég þekki það sjálfur. Ég starfaði þarna í mörg ár. (GHall: Varst þú ekki sáttur við útvarpsráð?) Ég var ekki alltaf sáttur við það, að sjálfsögðu ekki, en ég vil að sjálfsögðu að þessi stofnun sem er í almannaeign lúti almannastjórn og þangað liggi einhverjir lýðræðislegir þræðir. Mér finnst ekkert óeðlilegt við það.

Hin spurningin sem ég vildi beina til hv. þm. er svohljóðandi: Ef skylduáskriftin er afnumin, vill hann þá tryggja samsvarandi fjármagn til Ríkisútvarpsins í gegnum beina skatta?