Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 18:07:14 (4474)

2001-02-12 18:07:14# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[18:07]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég efast ekki um að bæði hæstv. menntmrh. og æðstu stjórnendum Ríkisútvarpsins þætti miklu þægilegra að hafa bara svona tveggja manna tal sín á milli og ekkert útvaprsráð sem truflaði þá. En finnst okkur þetta svara kröfum lýðræðisþjóðfélags? Er það eðlilegt? Er nokkuð óeðlilegt við að fjölbreytt sjónarmið komist að hjá stjórnendum þessarar stofnunar, gagnrýni o.s.frv.? Mér finnst að skoða megi hvernig skipað er í þetta ráð sem á að halda uppi aðhaldi og gagnrýni á þessa stofnun. Ég held að hún hafi bara gott af því.

En skildi ég það rétt hjá hv. þm. að hann vildi svipta stofnunina tekjustofnum? Hann ætlaðist ekki til að peningar kæmu úr ríkissjóði ef afnotagjöldin yrðu lögð af. Mér finnst hann gera mikið úr auglýsingatekjum og spyr: Er starfsemi Ríkisútvarpsins dýrari, kostnaðarsamari en hjá öðrum útvarpsstöðvum? Já, hún er miklu kostnaðarsamari á marga lund enda sinnir Ríkisútvarpið fræðslu og menningarlegum skyldum í miklu ríkari mæli en allar aðrar útvarpsstöðvar í landinu. Þetta er ástæðan fyrir því að við viljum hafa sterkt, öflugt þjóðarútvarp, menningarmiðil sem gegnir sínu hlutverki vel. Margt í starfsemi Ríkisútvarpsins er á heimsmælikvarða. Ég vísa þar í dagskrá Rásar 1 og hið sama á reyndar við um aðra hluta þessarar stofnunar sem ber að efla en ekki draga úr. Ég held að ef við sviptum Ríkisútvarpið tekjum sínum að öðru leyti en auglýsingatekjum þá mundi það að sjálfsögðu koma niður á dagskránni.