Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 18:30:52 (4478)

2001-02-12 18:30:52# 126. lþ. 67.10 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Flm. GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[18:30]

Flm. (Gunnar Birgisson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt til að svara þessu er það alveg rétt að í sumum löndum eru örugglega fleiri sem stunda knattspyrnu en ólympískt box. Nefna má lönd eins og til að mynda Bandaríkin þar sem hnefaleikar eru gífurlega vinsæl íþrótt og ein af fjölmennustu íþróttunum sem stundaðar eru í Bandaríkjunum þannig að samanburður þar segir manni meira en lítið þegar þetta lendir í 71. sæti hvað varðar hættu.

Bara með því að fara, eins og ég gerði, í gegnum skýrslu hjá fagtímaritum og breska læknatímaritinu, þá sést að þetta er gífurlega vinsæl íþróttagrein í Bretlandi. Skyldu það vera fleiri eða færri sem stunda hestaíþróttir í Bretlandi en hnefaleika? Ég get ekkert sagt um það. Hv. þm. hefur dvalist í Bretlandi eins og ég og þekkir að þetta er mjög vinsæl íþróttagrein þar en ég tel það ekki skipta meginmáli. Það sem er niðurstaðan í læknisfræðilegum rannsóknum er að þar eru hverfandi líkur á meiðslum. Aðrar íþróttagreinar geta líka valdið meiðslum eins og knattspyrna, handknattleikur og hestaíþróttir. Meiri möguleiki er á að meiðsli verði í þeim íþróttagreinum en ólympískum hnefaleikum en samt eru þessar íþróttagreinar leyfðar hér á landi. Ég spyr: Hvers eiga ólympískir hnefaleikar að gjalda?