Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 18:43:22 (4482)

2001-02-12 18:43:22# 126. lþ. 67.10 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[18:43]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég kem upp í fróðleiksleit. Hv. þm. sagðist hafa séð margt ógeðslegt á íþróttaleikvangi, hræðileg höfuðhögg og að þau hefðu menn getað fengið í aðskiljanlegum íþróttaleikjum. Menn hefðu slasast í dansi, á hestbaki og í körfuknattleik. Ég spyr: Snýst þetta fyrst og fremst um jafnræði með íþróttagreinum? Jafnvel þótt rétt væri að menn slösuðust í öðrum greinum eigi síður en í þessari þá vil ég spyrja hv. þm.: Snýst þetta ekki um neitt annað? Skiptir eðli íþróttagreinarinnar engu máli? Mörgum sem hafa andæft hnefaleikum og öðrum bardagaíþróttum finnst svo vera. En ég vek athygli á því að jafnvel þótt hnefaleikar og ýmsar bardagaíþróttir séu leyfðar víða um lönd þá er það ekki svo að það sé óumdeilt. Víða er þetta umdeilt og til að mynda í Bandaríkjunum eru fjölmargir hópar, einnig úr röðum fyrrverandi hnefaleikamanna, sem hafa verið því fylgjandi að bann verði lagt við þessari íþrótt. Ég vildi fá að heyra aðeins nánar röksemdir hv. þm. annars vegar um jafnræðið hvort það sé fyrst og fremst það sem þurfi að tryggja en svo ekki síður um hitt: Snýst þetta ekki að einhverju leyti um eðli íþróttagreina? Leggja menn allt að jöfnu, dansíþróttina, hestamennskuna, körfuknattleikinn og hnefaleika?