Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 18:45:44 (4483)

2001-02-12 18:45:44# 126. lþ. 67.10 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[18:45]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Það eru nokkur tíðindi ef þingflokksformaður vinstri grænna gefur í skyn að jöfnuður skuli ekki ríkja í íþróttum. Það sem ég dró fram var áhættumatið, grundvöllur að röksemdafærslunni gegn íþróttagreininni er í raun áhætta. Ef við viljum vera sjálfum okkur samkvæm þá eigum við að láta það gilda um aðrar íþróttagreinar og ég nefndi einungis nokkrar og hefði getað haldið áfram að telja upp þær íþróttagreinar sem stundaðar eru og slys verða í. Ég held að það sé mjög mikilvægt og trúi ekki öðru en að mikill jafnaðarmaður, hv. þm. Ögmundur Jónasson, vilji vera jafnaðarmaður í íþróttum líka.

Hvað síðari liðinn varðar um tilgang og eðli íþrótta má segja að mjög margar íþróttir feli í sér árásargirni. Gott sóknarlið er mjög árásargjarnt t.d. í handbolta eða í körfubolta. Við höfum innleitt og leyft íþróttagreinar eins og karate, júdó og aðrar slíkar sem eru fyrst og fremst hugsaðar sem varnaríþróttir, sjálfsvarnaríþróttir. Ég hygg að í framsöguræðu hv. þm. Gunnars Birgissonar hafi einmitt komið fram það sjónarmið að þetta væri upphaflega hugsað sem sjálfsvarnaríþrótt og sá væri mestur snillingur í að beita þessu sem keppnisgrein sem sýndi samhæfingu huga og líkama án þess að valda öðrum skaða. Í því fælist íþróttamennskan og snilldin.