Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 18:49:03 (4485)

2001-02-12 18:49:03# 126. lþ. 67.10 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[18:49]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ekki dreg ég í efa að andóf er gegn þessum íþróttum bæði í Bandaríkjunum og í Bretlandi og ég hef í rauninni enga athugasemd við það. En þetta eru engu að síður ekki bannaðar íþróttir. Ég hygg að m.a. ýmsir Norðurlandabúar, sem eru afskaplega meðvitaðir og á stundum ríkir í forsjárhyggju, væru búnir að banna þessa íþróttagrein ef hún væri jafnhættuleg og oft er gefið í skyn. En það skyldi þó ekki vera að þeir styðjist við þær ágætu rannsóknir sem hv. þm. Gunnar Birgisson dró fram í ágætri framsöguræðu sinni?

Síðan varðandi það að þetta sé fyrst og fremst árásaríþrótt þá eru þetta ekki hnefaleikar eins og Mike Tyson stundar, þetta eru ólympískir hnefaleikar. Ég legg áherslu á að þarna gefst áhugasömu fólki kostur á að stunda hreyfingu, samhæfa huga og líkama án þess að valda öðrum meiðslum, rétt eins og í karate og júdó og öðrum skyldum íþróttagreinum sem menn hafa ekki gert athugasemd við. Ég ítreka að það er í anda ólympíuhugsjónarinnar ganga ekki vísvitandi fram til þess að valda mönnum meiðslum. En svo gerist það vegna þess að það er misjafn sauður í mörgu fé, mönnum rennur kapp í kinn, og gerist örugglega í ólympískum hnefaleikum alveg eins og í handbolta, fótbolta og öðrum greinum --- og dansi. En þá skal gilda það sama um ólympíska hnefaleika og aðrar þær íþróttagreinar sem við höfum nú þegar heimilað hér.