Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 18:51:06 (4486)

2001-02-12 18:51:06# 126. lþ. 67.10 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., KF
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[18:51]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Þá hefur frv. til laga um að lögleiða ólympíska hnefaleika litið dagsins ljós á ný. Ég gerði mér það til gamans að fara yfir ræður sem voru fluttar af þessu tilefni sl. vor og þar var farið mjög ítarlega ofan í efnisatriði í þessu frv. og í málinu öllu.

Fyrst langar mig að segja að það að kalla þetta ólympíska hnefaleika finnst mér blekking. Í flestum löndum er talað um áhugamannahnefaleika. Fótbolti er ekki kallaður ólympískur fótbolti þó að keppt sé í fótbolta á Ólympíuleikum. Sama gildir um flestar aðrar íþróttir. Þetta er kallað áhugamannahnefaleikar víðast hvar eftir því sem ég best veit. Mér finnst það vera sett fram til að blekkja fólk og gylla og fegra það fyrirbæri sem hér er talað um.

Áhugamannahnefaleikar eru að mörgu leyti ólíkir atvinnumannahnefaleikum, það er alveg rétt. En þau rök sem dregin hafa verið fram um að um forsjárhyggju sé að ræða þegar þetta sé ekki heimilað hljóta þá að ná líka til atvinnuhnefaleika. Hægt er að beita nákvæmlega sömu rökum til að halda því fram að lögleiða eigi atvinnuhnefaleika en flutningsmenn þessa frv. hafa ekki gert það. En ef þessi röksemdafærsla stenst þá getur það orðið næsta skref.

Jafnræði milli íþróttagreina er auðvitað undir fána ólympíumerkisins, eitthvað sem almenningur í landinu og þeir sem hafa ekki hafa kynnt sér rannsóknir sem gerðar hafa verið á slysum í áhugamannahnefaleikum verða til þess að villa fyrir mönnum.

Áðan var lesið upp úr greinum úr breska læknablaðinu British Medical Journal frá 1998 og það gerði hv. þm. Gunnar Birgisson. Það sem þingmaðurinn sagði hins vegar ekki var að breska læknafélagið hefur reynt að beita sér gegn þeirri íþrótt sem við erum að ræða um hér. Sama er að segja um ameríska læknafélagið. Í báðum þessum löndum er þó öllu meiri vá á ferðum vegna þess að þar eru einnig leyfðir atvinnumannahnefaleikar og eðlilegt að menn reyni að beita sér þar sem vandinn er greinilega enn þá stærri.

Það er munur á slysatíðni milli íþróttagreina og ég held ekki nokkru öðru fram. En sú slysatíðni sem mér finnst skipta öllu máli, og má kannski kalla að skipti höfuðmáli, eru áverkar á heila. Brot gróa og meira að segja glóðaraugu jafna sig. En það sem ekki jafnar sig er heilinn. Í þriggja mínútna lotum má segja að heilinn sé ekki eins líklegur að verða fyrir áverka og í tólf mínútna lotum. En verði heilinn fyrir áverka er áverkinn mjög svipaður, þ.e. heilinn hefur ekki mjög margar leiðir til að bregðast við höggi. Hann bregst við högginu á sama hátt hvort sem hlíf er á höfðinu eða ekki vegna þess að heilinn heyfist ekki á sama hraða og hauskúpan. Yfir þetta eru til heiti á frönsku sem eru ,,coup`` og ,,contre coup``. Það þýðir að þegar högg kemur á höfuðið hreyfist höfuðkúpan á öðrum hraða en heilinn sem er þar inni í. Það er sá áverki sem er alvarlegur.

Ekki er hægt með neinum vitrænum hætti að bera þessi högg saman við slys í öðrum íþróttum sem eru alvöruslys. Þessum höggum er beint vísvitandi að höfði. Sams konar högg sem lenda á útlimum eða á brjóstgrind eða hvar sem er valda auðvitað líka áverka en það eru ekki eins alvarlegir áverkar og heilaáverkar. Beinin gróa, margt er hægt að græða og bæta með læknismeðferð og skurðaðgerðum en áverka á heilann er því miður ekki hægt að bæta. Þess vegna sagði ég það í vor, herra forseti, að eftir höfðinu dansa limirnir. Þegar ákveðið var fyrir margt löngu í hnefaleikum, hvort sem um atvinnumanna- eða áhugamannahnefaleika er að ræða, að banna að kýla fyrir neðan beltisstað, þá var það vegna þess að það komu alvarlegir áverkar á kynfæri íþróttamanna. Allir sameinuðust um að það gengi náttúrlega ekki að þau líffæri löskuðust varanlega í þessari íþrótt. Þess vegna hefur breska læknafélagið m.a. lagt það til að á sama hátt verði bannað að kýla fyrir ofan viðbein, líka í áhugamannahnefaleikum. Það er rökrétt. Þá eru áverkarnir sennilega álíka alvarlegir og í öðrum íþróttagreinum en reyndar vísvitandi af því að það er innifalið í reglum íþróttarinnar en ekki slys eins og er í öðrum. En þetta hafa boxarar náttúrlega ekki viljað heyra nefnt því að þeir segja: Þá er þetta ekki box. Þá er þetta ekki lengur box.

Umræðan í Bretlandi hefur oft borist hingað til lands. Nú í desember þegar hnefaleikari varð fyrir mjög alvarlegum höfuðáverka, hnefaleikari að nafni Paul Ingle, fór þessi umræða á fulla ferð aftur í Bretlandi. Ég hef ekki nákvæmar fréttir af því hvernig Paul Ingle reiddi síðan af en mér skilst að hann hafi orðið fyrir mjög alvarlegum áverkum. Í framhaldi af því segir í blaðagrein sem ég er með frá 18. desember að það standi til að leggja fram á breska þinginu tillögu um að banna högg á höfuðið í hnefaleikum. Ég veit ekki hvort þeir þingmenn sem flytja það hlustuðu á ræðurnar mínar í vor. Líkast til ekki en ég segi nú svona vegna þess að þetta er alvöruvandamál og menn horfast í augu við það annars staðar líka. Á meðan við erum að tala um að innleiða íþrótt sem getur valdið svona áverkum eru aðrir að reyna að losa sig út úr því. Ég veit að læknasamtök víða um heim vinna að því að reyna að stöðva íþróttina í löndum sínum og vilja jafnvel beita sér fyrir því að hún verði gerð útlæg frá Ólympíuleikunum.

Ef það er skylt í þessari íþrótt að læknir skoði keppandann fyrir keppni og eftir keppni hafa þá ekki læknar svolítið með það segja hvort þeir vilja taka þátt í því? Ég held að samtakamáttur lækna í heiminum gæti skipt mjög miklu í þessu. En sú læknisskoðun fyrir og eftir keppni er falskt öryggi fyrir keppandann vegna þess að heilaskaði, jafnvel vægur, getur haft alvarlegar afleiðingar seinna á ævinni. Svo virðist sem áhrif vægs heilaskaða, örvægs, kannski ítrekað, safnist saman.

[19:00]

Menn gera lítið með að það komi fram í rannsóknum að fínhreyfingar reynist kannski eitthvað skertar hjá boxurum, einhverjar fingrahreyfingar. En er það eitthvað sem er léttvægt? Það er ekki léttvægt. Skertar fínhreyfingar þýða að það er skaði í heilastarfseminni. Skertar fínhreyfingar geta þýtt að viðkomandi getur ekki unnið þau störf sem hann hefur unnið við, hann geti kannski ekki skrifað nafnið sitt, hann geti ekki unnið að ýmsu í daglegu lífi sem hann þarf að geta til að sjá um sig, sjá sér farborða o.s.frv. Menn mega ekki gera lítið úr þessu, skella í góm og halda að einhver smávegis brenglun á fingrahreyfingum sé smámál. Það er ekkert smámál.

Hitt er svo annað mál að það eru líka jákvæðar hliðar á áhugamannahnefaleikum. Ég sagði það líka í ræðum mínum í vor þegar við fjölluðum um þetta mál. Þau jákvæðu áhrif komu auðvitað fram í þeirri þjálfun sem fólk nær sem æfir þessa íþrótt eins og þegar það æfir aðrar íþróttir. Það stuðlar að betra hjarta- og æðakerfi, hjálpar lungum, styrkir vöðva og stælir skrokkinn, eykur snerpu. Það er allt af hinu góða. Þetta er loftsækin íþrótt þegar menn æfa fyrir hana og þar er áverkatíðnin og slysatíðnin núll, ef hægt er að tala um núll áverkatíðni. Hún er engin fremur en í því sem næsti maður í íþróttasalnum er að gera. Vandinn liggur í keppni þar sem einn er farinn að kýla annan en ekki bara í púða. Þar liggur vandinn. Mér þykir því miður að þetta frv. skuli ekki gera greinarmun á þessu tvennu. Ég segi fyrir mig að ég get vel hugsað mér að heimila sölu og notkun hnefaleikaglófa og annarra tækja til þjálfunar í hnefaleikum. Ég held að þetta sé ekki óhollari íþrótt en hver önnur. Hún er jafnholl og margar aðrar loftsæknar íþróttir. Mínar athugasemdir lúta að keppni í hnefaleikum, bæði áhugamannahnefaleikum og atvinnumannahnefaleikum, vegna þess skaða sem getur orðið á heila. Það er bara svona einfalt.

Með því að lögleiða áhugamannahnefaleika eru menn að heimila að börn niður í átta ára aldur fái að keppa í hnefaleikum. Menn verða að vita hvað felst í þessu. Aldursmörkin eru dregin þar. Ef átta ára barn fær að keppa í hnefaleikum, á hvaða aldri hefur það þá sína þjálfun? Ég segi fyrir mig að mér finnst þetta ekki vera það sem við þurfum að innleiða, keppni fyrir börn í hnefaleikum. Mér finnst það ekki. Ég held að það sé margt þarfara hægt að gera. Ég held að margar aðrar íþróttir geti kennt börnum snerpu, aga og þjálfun og komið þeim upp úr sjónvarpssætunum.

Herra forseti. Þetta er í stuttu máli skoðun mín á þessu máli. Það er mjög margt annað sem ég gæti tínt til hér og mun kannski gera við seinni umræðuna um þetta mál. Hv. þm. Gunnar Birgisson boðaði hér að á næstu Ólýmpíuleikum ætluðu menn að taka upp hnefaleika kvenna. Ég sé fyrir mér hvernig þetta verður hjá þeim ungu hnefaleikakonum sem í framtíðinni ætla sér að hafa börn sín á brjósti. Það verður fróðlegt að sjá hvernig það tekst hjá þeim eftir áverka og skemmda vefi. Þær hugsa ekkert um það í dag. Þær eru ekkert að fara að eiga börn. Þær ætla bara að keppa á Ólympíuleikunum. (Gripið fram í: Og svo?) Og hvað gerist svo? Mín spá er sú að verði þetta tekið upp á Ólympíuleikunum muni það ekki vera þar lengi.

Meiðslin eru hvað höfuðið varðar alvarlegri en í öðrum íþróttagreinum og í grein sem vitnað var í hér áðan úr British Medical Journal var sagt að af 18 þúsund slysum með höfuðáverkum hafi 70 verið úr hnefaleikum. Það kom fram í andsvari frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að það yrði að taka tillit til þess hversu margir stunduðu íþróttina. Við ræddum þetta talsvert í vor og menn hafa verið að reyna að slá á þetta einhverjum mælikvarða. Það þarf að reikna út í fyrsta lagi hve margir stunda íþróttina, hve lengi æfingatíminn stendur o.s.frv. Alla vega er það niðurstaða breska læknafélagsins eftir að yfirfara málið á þennan hátt að þetta sé ein hættulegasta íþróttin. Það er ekki hægt að bera saman heilan handboltaleik eða fótboltaleik og einhverjar þriggja mínútna lotur nema gera það á tölfræðilega og stærðfræðilega réttan hátt eins og verkfræðingurinn, hv. þm. Gunnar Birgisson, áreiðanlega veit að er rétt.

Herra forseti. Hér greiddu 27 þingmenn atkvæði gegn þessu frv. í vor og 26 greiddu með. Þar með tóku þónokkrir greinilega ekki þátt í þeirri atkvæðagreiðslu. Ég skora á þá og jafnvel einhverja af þessum 26 sem samþykktu frv. í vor að hugsa um þessi varnaðarorð. Ef breska læknafélagið telur ástæðu til þess að fara í herferð gegn þessari íþrótt vegna áverka á heila, vitum við þá betur á Alþingi Íslendinga? Ég held að við verðum að fara eftir vitrænum ábendingum af þessu tagi.

Ég ætla aðeins að nefna að í greinargerð með frv. var talað um Yvonne Haglund lækni. Í rannsóknum hennar er einmitt sagt undir lokin að fram hafi komið munur á hópunum hvað varðar viss taugafræðileg próf. Ég ætla ekki að tefja tímann með því að fara að fletta upp í þessu núna en ég er með þessa grein. Það má ekki líta fram hjá því. Síðan gefur fjöldi annarra rannsókna vísbendingar um að heilaskaði vegna áhugamannahnefaleika sé jafnalvarlegur og af öðru boxi og menn telja að það sé vegna þessa sem ég sagði áðan að heilinn hreyfist ekki á sama hraða og höfuðkúpan þegar högg er veitt höfðinu.

Herra forseti. Nú fer þetta frv. líkast til til menntmn. En ég fer þess á leit að það verði sent til umsagnar heilbr.- og trn. jafnframt.