Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 19:11:18 (4488)

2001-02-12 19:11:18# 126. lþ. 67.10 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[19:11]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þm. Gunnar Birgisson snúa algerlega við því sem ég var að segja. Ég var ekki að tala um að verið væri að reyna að innleiða atvinnuhnefaleika. Ég var að nota það sem samlíkingu við rökin um forsjárhyggjuna. Ef það er forsjárhyggja að leyfa ekki áhugamannahnefaleika, er þá ekki líka forsjárhyggja að leyfa ekki atvinnumannahnefaleika? Þetta var samlíkingin sem ég að taka, ekkert annað.

Í öðru lagi var spurt hvort breska læknafélagið hefur gert einhverja sérstaka samþykkt á móti áhugamannahnefaleikum. Breska læknafélagið hefur ályktað út af höfuðáverkum í hnefaleikum og það eru bæði atvinnumanna- og áhugamannahnefaleikar vegna þess að áverkinn á heilann er hinn sami. Þó að hann sé algengari í atvinnumannahnefaleikum þá er hann í eðli sínu sá sami af því að höfuðið, heilinn bregst við á sama hátt við högginu. Og hvað varðar höfuðið sem skallar fótbolta þá hef ég ekki tölur um það hér. En ég efast ekki um að ef áverkinn er jafnalvarlegur og af þessu þá mundi breska læknafélagið og önnur læknafélög í heiminum álykta um það og reyna að hafa áhrif á það. En það hefur ekki verið gert svo ég viti þannig að ég dreg af því þær ályktanir að svo sé ekki, en þori ekki að svara því fyrr en ég hef flett því upp nánar.