Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 19:12:59 (4489)

2001-02-12 19:12:59# 126. lþ. 67.10 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Flm. GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[19:12]

Flm. (Gunnar Birgisson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn sagði líka að aðrar þjóðir væru að reyna að losa sig út úr þessum hnefaleikum. Hún er kannski fróðari en ég um þessi mál en ég hef ekki heyrt mikinn hávaða í því máli hjá öðrum þjóðum. Norðurlandaþjóðir stunda þetta og keppa í þessu á Ólympíuleikum og hafa átt ólympíumeistara í þessari grein. Og varðandi hnefaleika fyrir börn þá er eins og það sé alveg voði að unglingar stundi hnefaleika. Þetta er bara heilbrigð íþrótt, sjálfsvarnaríþrótt. Hv. þm. hefur ekki komið inn á hinar austurlensku bardagaíþróttir, sjálfsvarnaríþróttir. Þar eru menn að berjast til að skora stig. Það er ekki eingöngu að menn fái stig fyrir að koma höggi á höfuðið í hnefaleikum. Það má ekki skilja það þannig. Mér finnst þetta atvinnumannahnefaleikatal ekki eiga heima hérna núna.

Við erum að tala um að leyfa hér ólympískt box og við sem flytjum frv. segjum að það sé ekki hættulegra en aðrar íþróttagreinar, síður en svo. Því segjum við að við viljum að landinn geti valið það að fá að keppa í þessari grein sem öðrum. Ef menn finna út úr þessu alls staðar annars staðar í heiminum að þetta sé óferjandi og hættulegt --- en ekkert hefur komið fram þar að lútandi.

Varðandi síðan að fá fótbolta á höfuðið, þ.e. högg á höfuð. Það hlýtur að vera sama hreyfing á heilanum hvort heldur boxhanski eða fótbolti lendir á höfði. Eins og ég segi, ef fólk á að vera sjálfu sér samkvæmt í þessu þá á að banna allar íþróttir sem geta valdið höfuðhöggi og ég vona að hv. þm. endurskoði afstöðu sína í því ljósi.