Skýrsla auðlindanefndar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 14:06:45 (4499)

2001-02-13 14:06:45# 126. lþ. 68.91 fundur 291#B skýrsla auðlindanefndar# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Hér er vissulega hreyft mikilsverðu máli og ég tek undir að þörf hefði verið og rétt að taka skýrsluna til umræðu fyrr en gert hefur verið og fyllsta ástæða til að Alþingi fjallaði um efni hennar sem er ákaflega viðamikið og skiptir miklu máli fyrir fólk um land allt.

Skýrsla auðlindanefndarinnar hefur ekki verið afgreidd formlega í Framsfl. og ég á von á því að það verði gert á næstunni. Fram undan er flokksþing og þar munu menn taka afstöðu til þessarar skýrslu og þeirra tillagna sem í henni eru.

Ég vil segja um þessa skýrslu að ég staldra auðvitað fyrst við þá tillögu sem gerð er af hálfu nefndarinnar allrar og verður ekki annað séð en allir standi að, tillögu sem er að finna á bls. 27, um að taka sérstakt ákvæði inn í stjórnarskrá þar sem kveðið verði á um þjóðareign náttúruauðlinda og landsréttinda og um afnotarétt eða hagnýtingarrétt á þessum auðlindum gegn gjaldi eins og segir í þessum texta, með leyfi forseta: ,,... að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.``

Ég vil segja um þennan texta sem ég held að sé kannski grundvöllurinn að tillögum nefndarinnar að ég er sammála honum í öllum meginatriðum og tel rétt að hvetja menn til þess að hrinda efni hans í framkvæmd með lagasetningu á Alþingi.

Það er eins og fram hefur komið tvennt sem greinist síðan í tillögum nefndarinnar um útfærsluna á þessu. Það er annars vegar svonefnd fyrningarleið og hins vegar önnur leið sem byggir á óbreyttu kerfi gegn vægu gjaldi eða gjaldtökuleið.

Ef menn velta fyrir sér að framlengja núverandi kerfi þar sem engar breytingar yrðu aðrar en þær að þeir sem í dag hafa veiðiheimildir undir höndum mundu hafa þær áfram til mjög langs tíma gegn hóflegri greiðslu og að hrint verði í framkvæmd þeir breytingum sem nefndin mælir með og veruleg krafa er uppi um af hálfu útgerðarmanna að afnema takmarkanir á framsali, þá erum við í þeirri stöðu að verið er að ákveða með lögum að afhenda réttindi á fyrir fram ákveðnu verði en síðan veita þeim sem réttindin fá heimild til þess að selja þessi réttindi á markaðsverði og innheimta þann hagnað sem er á milli markaðsverðs annars vegar og ákveðins verðs hins vegar. Þá þurfa menn að velta því fyrir sér hvort það fyrirkomulag sé eðlilegt til lengri tíma litið.

Ég vil lesa upp úr ályktun síðasta flokksþings Framsfl. sem veitir ákveðnar vísbendingar um afstöðu manna gagnvart þessari spurningu en þar stendur, með leyfi forseta: ,,Framsóknarmenn telja óeðlilegt að einstakir aðilar skuli hafa komist upp með að fénýta endurnýjanlegar auðlindir í eigin þágu. Nauðsynlegt er að skattkerfinu verði beitt til að koma í veg fyrir að slíkt gerist í framtíðinni.`` Því er ljóst að þarna er um að ræða ákaflega mikið álitaefni, að hve miklu leyti veita á útgerðarmönnum heimild til þess að innheimta tekjur af öðrum útgerðarmönnum því að framsalið hefur enga þýðingu nema fyrir hendi séu einhverjir aðrir útvegsmenn sem vilja taka veiðiheimildirnar á leigu af þeim sem hafa þær fyrir.

Það beinir sjónum manna að öðru atriði sem leiðir af þessum vanda sem er mismunandi samkeppnisstaða útvegsmanna innan greinarinnar þar sem hluti útvegsmannanna býr við það forskot að þurfa ekki að greiða fyrir veiðiheimildirnar nema lítið fé og annar hluti útvegsmanna býr við þá stöðu að hann þarf að greiða hinum hlutanum verulegt fé til þess að fá að gera út. Þessi samkeppnisskilyrði eru algerlega ójöfn. Það sér hver maður að erfitt er að réttlæta til frambúðar slíkt kerfi.

Það hefur líka í för með sér að byggðarlög sem hafa orðið illa úti og misst frá sér veiðiheimildir sínar eru í þeirri stöðu að útvegsmenn í þeim ná ekki vopnum sínum og geta ekki byggt upp stöndugar útgerðir nema með því að greiða óheyrilegt fé til annarra útvegsmanna á öðrum stöðum. Ég hlýt að spyrja: Hvar er réttlætið í því, herra forseti? Þó að ég hafi fram að þessu ekki verið stuðningsmaður þess að taka upp markaðstengt úthlutunarkerfi þá er ég heldur ekki stuðningsmaður þess að það kerfi sem við notum í dag leiði til þess að blómlegar byggðir hnigni jafnt og þétt eftir því sem árin líða. Ég hlýt því að gera þá kröfu að menn breyti löggjöfinni á þann hátt að menn standi a.m.k. jafnfætis þannig að þeir sem lifa og starfa í þessum sjávarplássum eigi þann möguleika til framtíðar litið á jafnréttisgrundvelli. Þess vegna segi ég, herra forseti, að sú leið að framlengja núverandi ástand er ekki viðunandi. Það verður að breyta þessu ástandi og því verður ekki breytt nema að innkalla veiðiheimildirnar af þeim sem hafa þær fyrir og endurúthluta þeim á jafnréttisgrundvelli. Ég sé enga aðra leið í þessum efnum til að jafna stöðu manna og gera mönnum kleift að komast úr þeirri stöðu að vera leiguliðar annarra útgerðarmanna í öðrum landsfjórðungum.

Herra forseti. Hér er um mikið mál að ræða. Ég þekki útvegsmenn vestur á fjörðum sem voru togarasjómenn og þegar sá togari var seldur í annan landsfjórðung ásamt kvóta sínum þá vildu mennirnir á togaranum hafa vinnu áfram við það sem þeir höfðu unnið. Þeir vildu búa áfram þar sem þeir hafa búið þannig að þeir gripu til þess ráðs að kaupa sér bát, kvótalausan. Þeir hafa reynt að hafa ofan af fyrir sér og sínum með því að gera út þann bát og leigja til sín allan þann kvóta sem þeir veiða. Útgerðardæmið lítur þannig út að þeir veiða fyrir 45 millj. kr. á ársgrundvelli. Þar af greiða þeir um 30 millj. kr. í leigugjald til þess sem á kvótann. Ég get ekki með nokkru móti, herra forseti, fallist á að framlengja slíkt kerfi.