Skýrsla auðlindanefndar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 14:31:52 (4503)

2001-02-13 14:31:52# 126. lþ. 68.91 fundur 291#B skýrsla auðlindanefndar# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[14:31]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Auðlindanefnd var falið að fjalla um auðlindir sem eru eða kunna að vera í þjóðareign. Kjarninn í tillögum nefndarinnar er nýtt stjórnarskrárákvæði þar sem annars vegar er kveðið á um réttarstöðu eigandans, þ.e. þjóðarinnar, og hins vegar er fjallað um öryggi afnotaréttarins til handa þeim sem fá að nýta auðlindina á hverjum tíma. Í þeirri tillögu sem fyrir liggur segir, herra forseti, með þínu leyfi:

,,Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. ... Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.``

Herra forseti. Þetta var grunnurinn að öðrum tillögum auðlindanefndar. Auðlindanefnd lagði til að úthlutun þeirra réttinda sem þarna er fjallað um yrði með uppboði þar sem samkeppni um réttindin er næg en ella með samningum þar sem reynt væri að meta hugsanlegan auðlindaarð.

Herra forseti. Það er alveg ljóst miðað við þær deilur og þá dóma sem verið hafa allt of tíðir á undanförnum árum að það er nauðsynlegt bæði að skýra réttarstöðu eigenda auðlindarinnar og ekki síður hitt að þeim sem hafa afnot af þessari auðlind eða öðrum sé algerlega ljóst hver er réttur þeirra og líka hverjar eru skyldur þeirra.

Það var svolítið merkilegt, herra forseti, að hlýða á ræður annars vegar frummælanda og hins vegar hæstv. ráðherrans. Þær báru sama svipinn. Báðir tóku úr samhengi og tóku til og lýstu sérstaklega því sem þeim hentaði. Hvorugur minntist á stjórnarskrárákvæðið, hvorugur taldi það þess virði að nefna sem grundvöll annarra tillagna. Hæstv. ráðherra vék þannig að ákvæðinu þó að það væri að mestu leyti óháð því sem gerðist með endurskoðun laga. Herra forseti, þessi málflutningur kallar á viðbrögð. Það kemur nefnilega nokkuð á óvart ef endurskoðun laganna um stjórn fiskveiða getur nú farið fram án tillits til þess grundvallar sem auðlindanefndin leggur með tillögu sinni um stjórnarskrárákvæði um eignarhald og réttarstöðu eigenda og notenda auðlindarinnar.

Hæstv. ráðherra virðist gleyma því að tillaga auðlindanefndar er heildstæð tillaga sem sátt náðist um í nefndinni á þeim grundvelli. Enginn ætlar að hlaupast undan þeim merkjum en ekki er hægt að ganga að því sem vísu, herra forseti, að sú sem hér stendur styðji einstök atriði valin af hæstv. ráðherra eða annarri nefnd eftir að allt hefur verið slitið úr samhengi og það á ekki bara við um þá sem hér stendur. Það á einnig við um þann flokk sem hún situr fyrir á Alþingi.