Skýrsla auðlindanefndar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 14:44:54 (4506)

2001-02-13 14:44:54# 126. lþ. 68.91 fundur 291#B skýrsla auðlindanefndar# (umræður utan dagskrár), VE
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[14:44]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Í þeirri skýrslu sem hér er til umræðu kemur fram að grundvallaratriði fyrir því að leggja á auðlindaskatt í einhverri mynd sé umframhagnaður í sjávarútvegi, þ.e. einhver auðlindarenta sé til staðar sem hægt sé að skattleggja. Til þess að slík auðlindarenta skapist eða umframhagnaður þarf fiskveiðistjórnarkerfið að leyfa hagkvæmni í rekstri fyrirtækjanna, hagkvæmni í rekstri greinarinnar. Að öðrum kosti skapast aldrei þessi fiskveiðiarður.

[14:45]

Hvort menn ná í þennan fiskveiðiarð með auðlindaskatti eða með svokallaðri fyrningarleið er fyrst og fremst spurning um aðferð til þess að ná inn þessum umframhagnaði. Að sumu leyti mundi fyrningarleiðin styrkja eignarréttarlega stöðu þeirra nýtingarrétta sem felast í kvótanum og að því leyti til væri hún í einhverju formi æskilegri.

En varðandi þennan svokallaða gjafakvóta sem hér verður mörgum að umræðuefni vil ég segja að mér finnst sú umræða að mörgu leyti á villigötum. Fjölmörg fyrirtæki í sjávarútvegi starfa á Verðbréfaþingi. Hlutabréf í þessum fyrirtækjum hafa gengið kaupum og sölum á háu verði. Ríkið, undir forustu Alþb. á sínum tíma, einkavæddi jafnvel eitt sjávarútvegsfyrirtæki og seldi það á eðlilegu verði að því er sagt var, og ég veit ekki til þess að þeir sem fjárfestu í því hafi fengið neinn gjafakvóta með því. Eða þegar þeir sem fjárfestu í Útgerðarfélagi Akureyringa á sínum tíma og keyptu hlutabréf af bæjarsjóðnum á Akureyri, ég veit ekki til þess að þeir hafi fengið neinn gjafakvóta. Eða þeir sem voru nýlega að kaupa hlutabréf í Samherja fyrir 3 milljarða, voru þeir að fá einhvern gjafakvóta? Enda snýst málið um það að fyrirtæki sem starfa við þessi skilyrði þurfa að ná þvílíkri hagkvæmni í rekstrinum að þau geti staðið undir því verði sem menn hafa verið að greiða fyrir þessi hlutabréf. Það þýðir ekki að koma hér og tala um það annars vegar að það eigi að leggja auðlindaskatt á í einhverju formi og hins vegar að það megi síðan ekki hagnast á rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Og það þýðir ekki að tala um að leggja auðlindagjald á einhvern umframhagnað ef ekki má síðan eiga viðskipti með aflahlutdeildir eða aflamark eða viðskipti með fyrirtæki yfirleitt.

Það er athyglisvert að menn koma hérna og tala jafnvel um 10% fyrningu á ári. Þá erum við að tala um 12 milljarða gjaldtöku á greinina. Er slík tillaga lögð fram vegna þess að menn haldi að umframhagnaður í sjávarútvegi sé 12 milljarðar? Hafa menn t.d. skoðað reikninga Útgerðarfélags Akureyringa núna og fundið það út að 10% af útflutningsverðmæti þess fyrirtækis sé umframhagnaður? Það þýðir náttúrlega ekkert að koma hingað og tala um einhverjar prósentur í fyrningu hvort sem það eru 3% sem mundu skila 6 milljörðum, 5% sem mundu skila 8,5 milljörðum, og segja svo á hinn veginn að sjávarútvegurinn megi þá ekki skipuleggja sig þannig að hann geti grætt þessa peninga. Þá eru menn bara að drepa málum á dreif og tala ekkert um málið eins og það liggur fyrir.

Fólki er að fækka í sjávarútvegi enda er það nauðsynlegt vegna þeirrar hagræðingar sem er í gangi. Og ef menn hafa raunverulegan áhuga á framþróun byggðar í landinu þá mundu menn vera að tala um það hvernig byggðirnar eigi að bregðast við og byggja upp nýja atvinnustarfsemi í stað sjávarútvegsins.