Skýrsla auðlindanefndar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 14:53:45 (4508)

2001-02-13 14:53:45# 126. lþ. 68.91 fundur 291#B skýrsla auðlindanefndar# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[14:53]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Kjarni málsins kom að mínu viti vel fram í orðum hv. þm. Vilhjálms Egilssonar sem sagði hér áðan að aðilar hefðu keypt hlut í útgerðarfyrirtæki fyrir 3 milljarða króna og það væri að sönnu ekki gjafakvóti eða hvað? Ég held nefnilega að menn eigi að velta fyrir sér þessari athugasemd.

Hvað hefðu menn verið tilbúnir til að borga fyrir þessi hlutabréf ef fyrirtækið þyrfti að borga fyrir veiðiheimildirnar í stað þess að hafa þær undir höndum að miklu leyti án þess að þurfa að borga nokkuð fyrir þær? (Gripið fram í.) Hvernig hefðu menn verðlagt þessi hlutabréf ef rekstrarskilyrði fyrirtækisins hefði verið það en ekki eins og það er í dag? Og hvað eru menn tilbúnir til að fjárfesta í nýjum útgerðarfyrirtækjum sem menn eru að reyna að koma á lappirnar á þeim stöðum þar sem kvótinn hefur farið burt? Svarið liggur líka fyrir. Menn eru ekki tilbúnir til þess vegna þess að menn eru ekki samkeppnisfærir í að reka sitt fyrirtæki í samkeppni við annað fyrirtæki sem hefur mikinn kvóta og þarf ekkert að greiða fyrir hann en getur þess í stað aflað sér tekna með því að leigja út þann kvóta öðrum útvegsmönnum sem verða þá að leggja það á sig að taka tekjur úr sínum rekstri til að standa undir þessum greiðslum.

Ég held nefnilega að þetta atriði hv. þm. varpi að mörgu leyti ljósi á vandann í þessu máli, þann vanda sem þessi mismunandi samkeppnisaðstaða skapar og þann vanda sem hún leiðir af sér milli byggðarlaga og milli fyrirtækja. Ég held, og það var ég að segja í fyrri ræðu minni, að menn verði að stefna að því að jafna aðstöðu fyrirtækja að þessu leyti. Og það gera menn ekki með því að framlengja óbreytt kerfi. Það gera menn aðeins með því að innkalla veiðiheimildirnar í áföngum og jafna þannig aðstöðu fyrirtækja.

Ég er á þeirri skoðun að skynsamlegast sé að hluti veiðiheimildanna sé á forræði sveitarfélaga. Það eigi ekki allt að vera á forræði ríkisins heldur verði hluti þeirra að vera á forræði sveitarfélaganna. Ég tel að það megi hugsa sér að innkalla um þriðjung til fjórðung veiðiheimildanna, 3--5% á ári, og láta sveitarfélögin hafa það til úthlutunar hjá sér sem þau bjóði út og hafi heimild til að setja skilmála sem tryggja eiga atvinnustarfsemi í viðkomandi sveitarfélagi. Ég held að það verði að vera þannig til þess að menn tryggi stöðu byggðarlaganna, að þá hafi byggðarlögin eitthvað undir höndum til að tryggja sína stöðu. Ég er sammála hæstv. félmrh. í þeim áherslum sem hann dró upp að þessu leyti í sinni ræðu.

Menn kunna að segja að þarna sé þá verið að frysta eitthvert tiltekið byggðamynstur, eitthvert tiltekið ástand. Já, það er verið að leitast við að gera það. Og þá segi ég á móti að vilji menn gera breytingar á byggðunum, fækka sjávarplássunum þá verða menn að koma með lausnir í stað þess sem þeir taka í burtu. Það er engin hemja að opinber stjórnvöld kippi fótunum undan fólki með lögum og aðferðum, leikreglum í þjóðfélaginu og gefi mönnum þá engan kost á öðru starfi á þeim slóðum þar sem þeir sækja sína vinnu. Annað er ekki boðlegt hvorki á Íslandi né annars staðar en að gefa mönnum möguleika á nýjan leik.