Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 15:19:57 (4513)

2001-02-13 15:19:57# 126. lþ. 68.2 fundur 297. mál: #A lax- og silungsveiði# (gjöld og veiðitími) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[15:19]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér virðist vera um einfalt frv. að ræða sem lagt er fram til að lagfæra annmarka í lögum og samræma ákvæði þeirra. Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að veiðimálastjóri geti gefið undanþágu varðandi lengingu veiðitíma göngusilungs. Áður hafði umsagnarhlutverkið verið flutt til veiðimálanefndar. Þetta var mjög snúið og frá mínum bæjardyrum séð er sú einföldun til bóta sem hér er lögð til.

Það á jafnframt við um 3. gr. þar sem lagt er til að afnumið verði að veiðimálastjóri mæli bæði með staðfestingu rekstrarleyfis og gefi leyfið út. Í staðinn er lagt til að veiðimálastjóri gefi út rekstrarleyfi og öðlist starfsemin þar með réttindi. Mér finnst þetta vera einföldun og til bóta.

Að öðru leyti er skýrt í frv. hvað varðar möguleika til skattlagningar og töku þjónustugjalda frá því sem var í fyrri lögum. Það virðist líka horfa til bóta. Einnig er í 5. gr. frv. sett inn ákvæði til að skýra þær heimildir sem Fiskræktarsjóður hefur til aðfarar ef ekki er staðið við greiðslu þeirra gjalda sem ákveðin eru í lögum.

Við fyrstu sýn virðist mér þetta vera gott frv. og vel ásættanlegt. Að sjálfsögðu á eftir að fara mun betur yfir það í landbn. og kann þá sitthvað að koma í ljós en ég mun taka þátt í þeirri yfirferð og móta mér frekari skoðun á frv. í framhaldinu.