Dýrasjúkdómar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 15:22:57 (4514)

2001-02-13 15:22:57# 126. lþ. 68.3 fundur 291. mál: #A dýrasjúkdómar# (sjúkdómaskrá o.fl.) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[15:22]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993. Frv. er á þskj. 322 og er 291. mál þingsins.

Með frv. eru lagðar til tvenns konar breytingar. Annars vegar er lagt til að felld verði niður dýrasjúkdómanefnd sem aldrei hefur verið skipuð. Hins vegar er lagt til að núgildandi sjúkdómaskrá verði breytt í þá átt að aðlaga hana alþjóðlegum stöðlum.

Í 4., 7., 8., 9. og 10. gr. frv., herra forseti, er verið að gera breytingar til samræmingar því að dýrasjúkdómanefnd verði lögð niður. Lagt er til að ákvæði laganna um dýrasjúkdómanefnd, sem aldrei hefur verið skipuð, verði felld niður og skyldur hennar að hluta færðar yfir til yfirdýralæknis og að hluta til dýralæknaráðs sem skipað er af landbrh. skv. 4. gr. laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.

Í 1., 2., 3., 5. og 6. gr. frv., herra forseti, er verið að gera breytingar til samræmis breytingum á 11. gr. sem kveður á um nýja viðauka við lögin, viðauka 1A, 1B og viðauka 2. Með breytingunni er lagt til að tilkynningarskyldum sjúkdómum verði skipt í tvo flokka: viðauka 1A og viðauka 1B í stað viðauka 1 áður. Tilgangur þessarar skiptingar er að greina betur á milli mjög alvarlegra smitsjúkdóma (A-sjúkdóma), sem krefjast skilyrðislaust niðurskurðar, og annarra smitsjúkdóma (B-sjúkdóma) sem krefjast annars konar viðbragða eftir aðstæðum. Viðauki 2 (C-sjúkdómar) hefur einnig verið tekinn til ítarlegrar endurskoðunar. Hann nær nú yfir alla skráningarskylda sjúkdóma að kröfu OIE, en auk þess finnast þar smitsjúkdómar sem talið er mikilvægt að fylgst sé með hvað varðar dreifingu og útbreiðslu hér innan lands.

Nauðsynlegt er, herra forseti, að núgildandi sjúkdómaskrá verði aðlöguð alþjóðlegum stöðlum. Leitast er við að samræma listann í takt við reglur Alþjóðadýrasjúkdómastofnunarinnar í París (OIE), en hingað til hefur þess ekki verið gætt. Ísland hefur í áratugi verið eitt af aðildarríkjum OIE og hefur því ákveðnum skyldum að gegna í sambandi við skráningar og tilkynningar dýrasjúkdóma sem vart verður hér á landi. Þessi breyting greiðir fyrir allri skráningarvinnu um leið og hún einfaldar öll samskipti við erlend ríki á sviði dýraheilbrigðis.

Til þess að hægt sé að aðlaga íslenska sjúkdómaskráningu að leikreglum OIE er lagt til að ákveðnir sjúkdómakóðar fylgi öllum sjúkdómaheitum. Kóðar þessir eru þannig upp byggðir að með sjúkdómabókstafnum, þ.e. A, B eða C fylgir þriggja stafa talnaruna, til dæmis A010 sem er gin- og klaufaveiki, B059 sem er garnaveiki og C615 sem er bótulismi. Í nokkrum tilvikum er kóðinn án bókstafs, en það eru sjúkdómar sem ekki finnast á lista OIE. Þá er gefinn innlendur kóði svo auðvelda megi tölvufærslu og skilvirkni, til dæmis má taka I013 sem stendur fyrir fjárkláða. Hér er bókstafnum I (fyrir Ísland) bætt fyrir framan þriggja stafa talnarunu.

Virðulegi forseti. Ekki verður við þessa umræðu ítarlega farið í að skýra einstakar greinar frv. en vísað til greinargerðar og athugasemda við einstakar greinar sem er að finna í þingskjalinu og auðvitað mun landbn. taka þetta mál til umfjöllunar, fara yfir efni þess og vinna það þinglega.

Ég legg því til að að lokinni þessari umræðu, hæstv. forseti, verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.