Dýrasjúkdómar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 15:31:29 (4516)

2001-02-13 15:31:29# 126. lþ. 68.3 fundur 291. mál: #A dýrasjúkdómar# (sjúkdómaskrá o.fl.) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[15:31]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka ágæta ræðu hv. þm. og segi að auðvitað verður þetta mál unnið í nefndinni.

Hv. þm. minntist á kúariðuna og þær tölur sem stæðu fyrir því. Ég ætla ekki að fara langt út í þá umræðu. Þetta er andstyggilegur sjúkdómur sem leikur kollega íslenskra bænda grátt í Evrópu og víða um veröld og er harmleikur sem ég vona að þeir nái sem fyrst tökum á og allir þeir sem betur standa að vígi þurfa að gæta hagsmuna sinna og verja sig.

Hv. þm. spurði hvort einhverja slíka lagastoð hefði vantað. Nú er ég búinn að margútskýra þetta mál úr þessum ræðustól og hef sagt sem svo: Hvað heimilaði GATT-samningurinn á sínum tíma? GATT-samningur var grundvöllur 140 þjóða til að auka flæði á landbúnaðarvörum eftir ákveðnum leiðum alveg eins og EES-samningurinn heimilaði annað sem við höfum kannski enn þá meiri áhyggjur af og verðum að skoða, þ.e. iðnaðarvörur, kjötmagn o.s.frv.

En það sem hefur komið út úr þeirri athugun sem ég lét gera er það að yfirdýralæknir fór í þessu máli bæði að samningum og lögum. Hitt var ljóst að það kom enn fremur út úr því að reglugerðin og auglýsingin gengju í rauninni lengra en samningurinn og lögin. Þess vegna hafði yfirdýralæknir farið þá leið gegnum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina að vera þar í netsambandi við þá, fá frá þeim nýjustu upplýsingar um dýr o.s.frv., fyrir utan hitt að niðurstaðan mun vera sú að í einhverju vísindasamfélagi í kringum þetta komast menn að einhverri vísindalegri niðurstöðu um hvað sé hættulegt og hvað er ekki hættulegt. Þar stöndum við frammi fyrir því að það sem hér gerðist var löglegt og það var samkvæmt samningnum. Því er það svo nú að þeir tveir lögmenn sem eru að vinna þetta mál fyrir ríkisstjórnina eru að yfirfara GATT-samninginn og lögin sem þingið setti á sínum tíma, hvort hægt sé að herða það þannig að við þurfum t.d. ekki að sæta því samkvæmt GATT-samningi að hingað komi vöðvar frá landi þar sem greinst hefur kúariða. Þetta er verið að fara yfir.

Af því hv. þm. sagði að mörg önnur lönd gerðu alla hluti þá vil ég taka enn einu sinni fram að Ísland er sem betur fer með þrengsta nálaraugað í þessu samfélagi GATT-þjóðanna og hefur sett sér þar skýrari og strangari reglur en aðrir. Við höfum t.d. ekki gert það sem allar hinar þjóðirnar munu gera, að leyfa flæði á kjöti í heilum og hálfum skrokkum eða kjöt á beinum. Við höfum ekki leyft það hingað. Við höfum fallist á þessa vísindalegu leið. Við tökum ekki frá hvaða landi sem er og hér er alla daga í hverjum mánuði verið að hafna innflutningi á kjöti einhvers staðar að í veröldinni. Fram að þessum tíma hafa menn trúað því að þetta væri nokkuð frjálst og áhættulaust væri að flytja kjöt hingað frá alls konar þjóðlöndum en menn hafa nú áttað sig á að bæði vill íslenski neytandinn það ekki og að auki getur það verið hættulegt.

Í sjálfu sér hef ég ekki meira um þetta að segja. Verið er að fara yfir lögin, hvort hægt sé að herða þau þannig að við getum staðið enn fastar og þrengt nálarauga okkar hvað þetta varðar. Þeir lögfróðu menn munu skila áliti sínu fyrir 1. mars, ef ég man rétt, þannig að þá kemur sú niðurstaða fram. Ég sem landbrh. mun auðvitað strax kynna hv. landbn. þá niðurstöðu sem hefur eðlilega fylgst með þessu máli, bæði haft áhyggjur af málinu og viljað gera allt til þess að vernda bæði íslenska neytendur og íslenskan landbúnað. Það styttist því í að þessar upplýsingar liggi fyrir.